Regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verði breytt í tveimur áföngum
Starfshópur samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um heildarendurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga leggur til að regluverki sjóðsins verði breytt í tveimur áföngum. Fyrst verði tekið upp nýtt kerfi útgjaldajöfnunar og síðan gerð grundvallarbreyting á jöfnunarkerfinu.
Kristján L. Möller, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Flosi Eiríksson, formaður starfshópsins, kynntu tillögurnar á blaðamannafundi í ráðuneytinu í dag. Ráðherra skipaði starfshópinn í ársbyrjun 2009 og var hlutverk hans að endurskoða laga- og reglugerðarákvæði um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Hélt hann 33 fundi auk þess sem fulltrúar hans sátu ársþing landshlutasamtaka sveitarfélaga á liðnu hausti. Hópurinn skilaði tillögum sínum nú í júní.
Starfshópinn skipuðu: Flosi Eiríksson, bæjarfulltrúi í Kópavogsbæ sem var formaður hópsins, Björg Ágústsdóttir, lögfræðingur, MPM, fyrrverandi bæjarsjóri í Grundarfjarðarbæ, og Guðmundur Bjarnason, fyrrverandi bæjarstjóri Fjarðabyggðar. Með hópnum unnu Hermann Sæmundsson, skrifstofustjóri í ráðuneytinu, Elín Pálsdóttir, forstöðumaður Jöfnunarsjóðs, Halldór V. Kristjánsson, sérfræðingur hjá Jöfnunarsjóði, Gunnlaugur Júlíusson, sviðsstjóri hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, og Guðni Geir Einarsson sérfræðingur. Einnig starfaði með hópnum Jóhannes Á. Jóhannesson, sérfræðingur hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
Umfang Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga hefur aukist mikið undanfarin ár. Ráðstöfunarfé sjóðsins var um tveir milljarðar króna árið 1990 en árið 2009 var það um 18 milljarðar. Gert er ráð fyrir að árið 2010 verði það tæplega 20 milljarðar. Með auknum verkefnum hafa reglur sjóðsins orðið æ flóknari og yfirsýn yfir grunnhlutverk sjóðsins að nokkru leyti tapast.
Starfshópurinn lagði til grundvallar að skýra þyrfti jöfnunarhlutverk sjóðsins og aðskilja þann þátt starfseminnar frá öðrum verkefnum sem sjóðnum hafa verið falin. Það er mat starfshópsins að afar brýnt sé að gera skýran greinarmun á þeim verkefnum sjóðsins sem eru annars vegar jöfnunarverkefni og hins vegar önnur verkefni, sem löggjafinn hefur falið sjóðnum að sinna. Fyrri þátturinn er meginviðfangsefni Jöfnunarsjóðs, að jafna útgjalda- og tekjumun sveitarfélaga og tryggja að allir íbúar landsins eigi kost á tiltekinni gunnþjónustu. Seinni þátturinn eru viðbótarverkefni sem sjóðnum hefur verið falið að sinna af ýmsum ástæðum en hafa í sjálfu sér lítið með jöfnun að gera.
Starfshópurinn leggur til að tekjujöfnunarframlag verði lagt niður í núverandi mynd og tekið upp nýtt fyrirkomulag útgjaldajöfnunar. Fyrst um sinn verði byggt á grunni núverandi kerfis, sem aðgreinir einstakar jöfnunaraðgerðir, t.d. jöfnun vegna grunnskóla. Leiðin er skilgreind í skýrslunni sem valkostur 2. Jafnframt kynnir hópurinn leið sem felur í sér grundvallarbreytingu á jöfnunarkerfinu og yrði næsta skref í umbreytingum Jöfnunarsjóðsins, í framhaldi af hinu fyrra. Hér er um nýja framsetningu að ræða sem myndi breyta verulega þeim aðferðum sem byggt er á í dag og viðhorfum til jöfnunarkerfisins. Aðferðin er skilgreind sem valkostur 3 og felst nánar í grófum dráttum í því að:
- Öll framlög sjóðsins sem hafa jöfnunartilgang, þ.e. öll framlögin í svokallaðri A-deild, verði sameinuð í eitt samræmt jöfnunarframlag til sveitarfélaga.
- Þróað verði nákvæmt útgjaldamælingarkerfi sem gefur nauðsynlegan grunn til að skilgreina og meta útgjaldaþörf sveitarfélaga vegna lögbundinna og venjubundinna verkefna, sem og vegna annarra tiltekinna þátta sem hafa áhrif á útgjaldaþörf.
- Tekið verði mið af hámarksskatttekjum einstakra sveitarfélaga af útsvari og fasteignaskatti en þörf fyrir framlög úr Jöfnunarsjóði ræðst af því hve mikið vantar upp á til að tekjur dugi fyrir skilgreindum, mældum gjöldum. Ef útgjaldaþörf er minni en skatttekjur verði ekki veitt framlag.
Þær breytingar sem starfshópurinn leggur til með valkosti 2 er að mati starfshópsins góður áfangi að nýju jöfnunarkerfi, valkosti 3, en nýtt jöfnunarkerfi þarf að þróa í góðu samstarfi við hagsmunaaðila.
Ráðherra sagði að fyrsta skref væri að fela starfsmönnum ráðuneytisins að hefja þegar innleiðingu breytinganna í reglur og viðeigandi lagafrumvörp þar sem við á svo að með nýju ári verði hægt að taka upp leið 2.
Sem annað skref sagði ráðherra að setja þyrfti af stað vinnuhóp með Sambandi íslenskra sveitarfélaga til að útfæra þær útgjaldamælingar sveitarfélaganna sem nefndin leggur til og eru grundvöllur að leið 3. Eins konar reiknilykil fyrir sveitarfélögin, íbúasamsetningu og aðrar breytur sem gefa ákveðnar vísbendingar um útgjaldaþörf sveitarfélags sem Jöfnunarsjóður myndi þá byggja á.