Hoppa yfir valmynd
28. júní 2010 Matvælaráðuneytið

Frístundaveiðar, 100-120 milljóna tekjuauki fyrir ríkissjóð

Með lögum nr. 22 frá 26. mars 2010 með breytingu á lögum nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða var ráðherra veitt heimild til ráðstöfunar allt að 200 lestum af óslægðum botnfiski til frístundaveiða fiskveiðiárin 2009/2010 og 2010/2011.

Í samræmi við þessi lög var sett reglugerð nr. 404/2010 um sérstaka úthlutun aflaheimilda til frístundafiskiskipa. Þar kemur m.a. fram að: 

Hinum úthlutuðu 200 lestum skal skipta jafnt á mánuðina maí, júní, júlí og ágúst. Komi ekki til úthlutunar viðmiðunarafla hvers mánaðar bætast ónýttar heimildir við viðmiðunarafla næsta mánaðar.

Heimildir sem ekki hefur verið úthlutað 31. ágúst 2010 falla niður. Gegn greiðslu gjalds er heimilt að úthluta aflaheimildum á skip sem leyfi hefur til frístundaveiða, sbr. 2. tl. 4. mgr. 6. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Fiskistofa annast úthlutun aflaheimilda og skal hverju skipi úthlutað að hámarki 2 lestum hverju sinni.

Verð á aflaheimildum skal vera meðalverð í viðskiptum með aflamark í þorski, sem birt er á vef Fiskistofu, í lok dags daginn áður en umsókn berst Fiskistofu og skal það greitt Fiskistofu fyrir úthlutun.

Aflaheimildir sem úthlutað er samkvæmt reglugerð þessari er einungis heimilt að nýta til frístundaveiða og eru þær framseljanlegar á milli frístundafiskiskipa.

Nú hefur ráðuneytið ákveðið að breyta viðmiðunardagsetningum vegna skiptingar hinn 200 lesta milli mánaða. Þannig mun úthlutun júlíkvóta flýtt til 26. júní og ágústkvóta til 20. júlí. Er þetta gert til að mæta þörf rekstraraðila fyrir kvóta í samræmi við fjölda ferðamanna sem veiðarnar stunda.

Frístundaveiðar, sem er nýr vaxandi þáttur í ferðaþjónustu hér við land, eins og þekkjast í dag hófust að marki á Vestfjörðum árið 2006. Með hinum nýju lögum og reglugerð er tekið á þeim þáttum sem ætlað er að skýra og styrkja starfsumhverfi þessarar greinar ferðaþjónustunnar eins og hún snýr að markmiðum fiskveiðistjórnunarinnar.

Núverandi handhöfum aflamarks eða krókaaflamarks stendur þó jafnframt til boða að stunda frjálsar handfæraveiðar að sömu skilyrðum uppfylltum. Þannig er sveigjaleikinn aukinn og möguleikar nýrra aðila til að stunda veiðar í atvinnuskyni auknir.

Ljóst er að með frístundaveiðum er ný grein ferðaþjónustu að festa sig í sessi með auknum gjaldeyristekjum. Frístundaveiðarnar greiða einnig markaðsverð fyrir úthlutaðan kvóta sem einnig skapar auknar tekjur fyrir ríkissjóð. Miðað við meðalverð í viðskiptum á aflamarki í þorski munu þannig renna milli 50 og 60 milljónir í ríkissjóð sem greiðsla fyrir aflaheimildir hvort ár eða 100-120 milljónir í heild.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta