Kortlagning hagrænna áhrifa skapandi greina á Íslandi
- Áhrif skapandi greina í íslensku hagkerfi metin í fyrsta sinn
- Mikilvægur þáttur í framtíðar stefnumótun stjórnvalda í atvinnumálum.
- Alþjóðlegur sérfræðingur vinnur verkið í samstarfi við innlenda fræðimenn.
Nú er í fyrsta sinn unnið að því að greina og meta hagræn áhrif skapandi greina á Íslandi á heildstæðan hátt. Fimm ráðuneyti og Útflutningsráð Íslands fjármagna verkefnið sem unnið er að frumkvæði samráðsvettvangs skapandi greina. Í dag var gengið frá samkomulagi við Colin Mercer, alþjóðlegan sérfræðing í hagrænum áhrifum skapandi greina, um að vinna verkið ásamt fræðimönnum við Háskóla Íslands.
Á Norðurlöndunum og í Evrópu hefur sú þróun orðið að skapandi greinar teljast nú sjálfstæður atvinnuvegur og sýna rannsóknir að í honum er einna mestur og hraðastur vöxtur. Þrátt fyrir mikil áhrif og sterka stöðu skapandi greina í íslensku samfélagi er lítið vitað um hvaða vægi og áhrif þær hafa í efnahagslegu samhengi. Helstu vísbendinguna um það er að finna í riti sem Dr. Ágúst Einarsson gaf út árið 2004 og fjallaði um hagræn áhrif íslenskrar tónlistar. Þar kemur m.a. fram að framlag menningar til landsframleiðslunnar er 4% sem er meira en öll starfsemi raf-, hita- og vatnsveitna og nær þrefalt meira en landbúnaður eða ál- og kísiljárnsframleiðsla. Því er ljóst að heildstæð greining á þætti skapandi greina í hagkerfinu er mikilvæg fyrir stjórnvöld þegar kemur að stefnumótun og ákvarðanatöku varðandi atvinnuuppbyggingu.
Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar (ÚTÓN) mun halda utan um framkvæmd verkefnisins fyrir hönd samráðsvettvangs skapandi greina sem auk ÚTÓN samanstendur af Hönnunarmiðstöð Íslands, Kvikmyndamiðstöð Íslands, Leiklistarsambandi Íslands, Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, Icelandic Gaming Industry og Bókmenntasjóði. Mennta- og menningarmálaráðuneytið er í forsvari fyrir ráðuneytin sem auk þess eru efnahags- og viðskiptaráðuneytið, fjármálaráðuneytið, iðnaðarráðuneytið og utanríkisráðuneytið. Kostnaður við verkefnið er 7 milljónir króna og koma samtals 5 milljónir króna frá ráðuneytunum og 2 milljónir frá Útflutningsráði Ísland.
Colin Mercer er brautryðjandi í rannsóknum og skrifum á kortlagningu hagrænna áhrifa skapandi greina og hefur unnið að þeim í yfir 20 ár. Honum til liðssinnis verður Tómas Young sem nýlega lauk MS ritgerð sinni í markaðsfræðum og alþjóðaviðskiptum frá Háskóla Íslands. Þá veitir Margrét Sigrún Sigurðardóttir lektor við Háskóla Íslands faglega ráðgjöf. Vinna við verkefnið hófst 1. apríl sl. og er áætlað að niðurstöður verði kynntar í byrjun október.