Varaforseti SINOPEC Group áhugasamur um orkusamstarf
Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra fundaði með Zhang Yaocang, varaforseta kínverska olíurisans SINOPEC Group í ferð sinni til Kína nú í júní. SINOPEC Group hefur átt samstarf við Geysi Green Energy um uppbyggingu hitaveitna í Kína og nýlega var undirritaður samningur um stofnun íslensk-kínversks jarðhitafélags í Peking. Af hálfu kínverja er mikill áhugi á frekar samstarfi enda stefnt að stóraukinni nýtingu jarðvarma.
Zhang Yaocang sagði iðnaðarráðherra frá stórhuga áformum kínverskra stjórnvalda um hitaveituvæðingu í næstu fimm ára áætlun landsins, frá 2011 til 2015. Markmiðið er að bæta við jarðvarmahitun í 30 milljón fermetra af húsnæði á tímabilinu. Þá stefna kínversk stjórnvöld á frekari þróun jarðvarmanýtingar, m.a. til raforkuframleiðslu á lághitasvæðum. Zhang lagði áherslu á mikilvægi ríkisstjórna við að styðja slíka þróun og nýsköpun í þessum geira. Þar gætu sameiginleg verkefni skipt miklu máli.
Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra nefndi önnur þróunarverkefni á borð við djúpborunarverkefnið og rannsóknir tengdar mögulegri olíuvinnslu á drekasvæðinu. Zhang vísaði til langrar reynslu SINOPEC af jarðfræðirannsóknum og borunum á miklu dýpi í tengslum við olíuiðnað og taldi áhugavert að fylgjast með djúpborunarverkefninu. Olíurannsóknamiðstöð SINOPEC mun einnig gera forkönnun á fyrirliggjandi gögnum um Drekasvæðið að beiðni Zhang.