Skýrsla um aðgerðir gegn einelti í skólum og á vinnustöðum
Starfshópur um mögulegar aðgerðir gegn einelti í skólum og á vinnustöðum hefur gefið út skýrslu með 30 tillögum að samhæfðum aðgerðum gegn einelti. Ríkisstjórn Íslands hefur samþykkt að styðja sérstaklega við aðgerðirnar með því að veita 9 m.kr. af ráðstöfunarfé sínu.
Helstu atriði:
- 30 tillögur að aðgerðum gegn einelti í skólum og á vinnustöðum í nýrri skýrslu starfshóps.
- Árlegur dagur verði helgaður baráttunni gegn einelti og kynferðislegri áreitni.
- Fagráði sem veitir ráðgjöf vegna erfiðra og illleysanlegra eineltismála verði komið á fót.
- Ríkisstjórnin styður sérstaklega við aðgerðir gegn einelti með 9 m.kr. framlagi af ráðstöfunarfé.
Starfshópur um mögulegar aðgerðir gegn einelti í skólum og á vinnustöðum hefur gefið út skýrslu með 30 tillögum að samhæfðum aðgerðum gegn einelti. Ríkisstjórn Íslands hefur samþykkt að styðja sérstaklega við aðgerðirnar með því að veita 9 m.kr. af ráðstöfunarfé sínu.
Meðal þess sem starfshópurinn leggur til er að sérstakur dagur verði árlega helgaður baráttunni gegn einelti og kynferðislegri áreitni. Meginmarkmiðið með slíkum degi er að skapa umræður í samfélaginu um mikilvægi þess að móta samfélag þar sem einelti fái ekki þrifist og kynna vel heppnaðar aðgerðir í því skyni. Þá er einnig lagt til að komið verði á fót fagráði sem almennir vinnustaðir, skólar eða foreldrar geti leitað til þegar koma upp erfið og illleysanleg eineltismál. Ríkisstjórnin hefur samþykkt að styðja sérstaklega við þessi tvö verkefni með því að veita 9 m.kr. af ráðstöfunarfé sínu. Önnur verkefni sem lögð eru til í skýrslunni rúmast innan núverandi fjárlagaramma. Greinargerðin er aðgengileg á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins.
Starfshópurinn hefur starfað í u.þ.b. eitt ár á vegum vegum þriggja ráðuneyta, þ.e. mennta- og menningarmálaráðuneytis, félags- og tryggingamálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis.