Starf tengiliðar vegna vistheimila auglýst laust til umsóknar
Dómsmála- og mannréttindaráðuneytið hefur auglýst laust til umsóknar starf tengiliðar vegna vistheimila skv. lögum nr. 47/2010.
Lög nr. 47/2010 mæla fyrir um greiðslu sanngirnisbóta úr ríkissjóði til þeirra sem urðu fyrir varanlegum skaða af illri meðferð eða ofbeldi á stofnunum eða heimilum sem falla undir lög um skipan nefndar til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn, nr. 26/2007. Dómsmála- og mannréttindaráðherra fer með yfirstjórn og framkvæmd laganna.
Starf tengiliðar felst í að koma með virkum hætti á framfæri upplýsingum til þeirra sem kunna að eiga bótarétt samkvæmt lögunum. Hann skal m.a. leiðbeina þeim sem til hans leita um framsetningu bótakrafna í kjölfar innköllunar sýslumanns. Þá skal hann aðstoða fyrrverandi vistmenn sem eiga um sárt að binda í kjölfar vistunar við að sækja sér þjónustu sem ríki og sveitarfélög bjóða upp á, svo sem varðandi endurhæfingu og menntun.
Umsækjandi skal hafa lokið háskólaprófi sem nýtist í starfi, próf í lögfræði eða sambærileg menntun æskileg. Æskilegt er að umsækjandi hafi þekkingu á gerð og meðferð bótakrafna, þekkingu á sviði barnaverndarmála og opinberrar stjórnsýslu. Umsækjandi skal jafnframt búa yfir hæfni í mannlegum samskiptum, vera sjálfstæður í vinnubrögðum og æskilegt er að hann hafi þekkingu á þeirri félagslegu aðstoð sem opinberir aðilar veita.
Ráðið verður í starfið frá og með 1. september 2010. Samkvæmt 10. gr. laga nr. 47/2010 getur ráðherra eftir 1. janúar 2013 lagt niður starf tengiliðs að fenginni tillögu úrskurðarnefndar um sanngirnisbætur.
Laun taka mið af kjarasamningi ríkisins við Félag háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins. Um fullt starf er að ræða og ráðgert er að starfsstöð tengiliðar verði hjá opinberri stofnun á grundvelli þjónustusamnings.
Umsóknir berist dómsmála og mannréttindaráðuneytinu, Skuggasundi 3, 150 Reykjavík, eigi síðar en 22. júlí, 2010.
Athygli er vakin á því að umsóknir gilda í sex mánuði frá því að umsóknarfrestur rennur út. Öllum umsóknum verður svarað og eru karlar jafnt sem konur hvött til að sækja um.
Þórunn J. Hafstein, settur ráðuneytisstjóri, veitir nánari upplýsingar um starfið í síma 545 9000.