Íslandsstofa formlega stofnuð
Íslandsstofa er ný stofnun sem á að markaðssetja og styrkja ímynd Íslands á fjórum lykilsviðum: Ísland sem áfangastaður ferðamanna, Ísland sem tækifæri fyrir fjárfesta og fyrirtæki, Ísland sem upprunaland vöru og þjónustu og Ísland sem upprunaland menningarafurða. Þrjú af þessum fjórum lykilsviðum tengjast verkefnum iðnaðarráðuneytisins beint í gegnum stofnanir ráðuneytisins eða samstarfsverkefni og það fjórða með margvíslegum öðrum hætti.
Íslandsstofa heyrir undir utanríkisráðuneytið en hefur blandaða stjórn þar sem Samtök atvinnulífsins tilnefna 4 af 7 stjórnarmönnum. Stofnunin tekur við verkefnum Útflutningsráðs við útflutningsaðstoð og erlendum markaðsmálum Ferðamálastofu. Tekjugrunnur Íslandsstofu er hið lögbundna markaðsgjald en auk þess mun iðnaðarráðuneytið gera samninga við Íslandsstofu um umsjón og rekstur viðamikilla verkefna á borð við Fjárfestingarstofu, markaðsmál ferðaþjónustunnar á erlendum mörkuðum og kynningu á Íslandi sem tökustað fyrir kvikmyndir.
Auglýst hefur verið eftir framkvæmdastjóra sem stýra mun uppbyggingu hinnar nýju stofnunar og vinna að stefnumótun og skipulagi starfseminnar með stjórn og starfsfólki.
Formaður stjórnar Íslandsstofu er Friðrik Pálsson, framkvæmdastjóri Hótels Rangár. Aðrir í stjórn eru Eggert B. Guðmundsson, forstjóri HB Granda, Einar Karl Haraldsson ráðgjafi, Innform, Kolbrún Halldórsdóttir, formaður Bandalags íslenskra listamanna, Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri, Sigsteinn Grétarsson, forstjóri Marel á Íslandi og Vilborg Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Mentor.
Stjórnin skal samkvæmt lögunum skipa fagráð til að móta áherslur einstakra málaflokka; á sviði ferðaþjónustu, matvælaframleiðslu, umhverfismála, menningarmála og fjárfestinga erlendra aðila hér á landi. Þá skipar stjórnin ráðgjafaráð um stefnumörkun og áherslur í störfum stofunnar og skulu málsvarar mikilvægustu hagsmuna á starfssviði stofunnar eiga sæti í ráðgjafaráðinu.