Hoppa yfir valmynd
5. júlí 2010 Utanríkisráðuneytið

Sex loftferðasamningar áritaðir

Chile-loftferdasamningurSex nýir loftferðasamningar voru áritaðir fyrir Íslands hönd á ráðstefnu Alþjóðaflugmála-stofnunarinnar um loftferðasamninga, ICAN 2010, sem fram fór í Montego Bay á Jamaíku 28. júní til 2. júlí sl. Samningarnir sex eru við Armeníu, Barbados, Brasilíu, Chile, Jamaíku og Kólumbíu. Jafnframt var undirrituð viljayfirlýsing um gerð loftferðasamnings við Panama.

Markmið ráðstefnunnar var að skapa aðildarríkjum stofnunarinnar vettvang til viðræðna um gerð tvíhliða loftferðasamninga. Fyrir íslensku samninganefndinni fór Kristján Andri Stefánsson sendiherra en ásamt honum tóku þátt í viðræðunum Karl Alvarsson, skrifstofustjóri í samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytinu, og Jóhanna Helga Halldórsdóttir, lögfræðingur hjá Flugmálastjórn. Sendinefndin hitti fulltrúa fjölmargra ríkja annarra en þeirra, sem áritaðir voru samningar og viljayfirlýsing við, en meðal þeirra ríkja sem haldnir voru formlegir fundir með voru Kanada, Suður-Kórea og Trinidad og Tobago.

Markmið samninganefndar Íslands í öllum tvíhliða viðræðum um loftferðasamninga er að tryggja flugrekendum eins mikið frelsi til að veita þjónustu milli samningsríkja, eins og hægt er. Tvíhliða samningar sem þessir snúast fyrst og fremst um gagnkvæmar heimildir til áætlunarflugs en um leið hefur verið leitað eftir samningum sem heimila óreglubundið flug auk farmflutninga. Í flestum samninganna hefur náðst verulegur árangur í þessa átt sem skapar ný tækifæri fyrir íslenska flugrekendur til áætlunarflugs eða óreglubundins flugs með farþega og vörur.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta