Meirihlutaeign Magma Energy Sweden í HS Orku heimil
Nefnd um erlenda fjárfestingu hefur fjallað um tilkynningu HS Orku hf. frá 25. maí 2010 um fjárfestingu MES (Magma Energy Sweden AB) á 52,35% viðbótarhlut í HS Orku hf. Með því er hlutur MES í HS Orku orðinn 98,5%. Ráðherra hefur nú borist álit nefndarinnar. Meirihluti nefndarinnar kemst að þeirri niðurstöðu með vísan til álits nefndarinnar frá 22. mars 2010 að fjárfesting MES gangi ekki gegn ákvæðum laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri. Minnihluti greiddi atkvæði gegn þessari niðurstöðu með vísan til álitsins frá 22. mars sl.
Samkvæmt lögum um erlenda fjárfestingu nr. 34/1991 er fimm manna nefnd, nefnd um erlenda fjárfestingu, kjörinni af Alþingi ætlað að fylgjast með því að ákvæðum laganna um takmarkanir á fjárfestingu erlendra aðila sé framfylgt og leggja mat á lögmæti þeirra fjárfestinga. Erlendum aðilum er almennt heimilt að fjárfesta í atvinnurekstri hér á landi. Í lögum nr. 34/1991 eru þó sérstakar takmarkanir settar við erlendri fjárfestingu í ákveðnum atvinnurekstri, s.s. sjávarútvegi og orkuiðnaði.