Nr. 44/2010 - 15. fundur sjávarútvegsráðherra við Norður-Atlantshafið
Í dag 8. júlí 2010 lauk árlegum fundi sjávarútvegsráðherra Norður-Atlantshafsins sem haldinn var á Prince Edward eyju í Kanada. Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tók þátt í fundinum en fundinn sóttu jafnframt fulltrúar Kanada, Grænlands, Færeyja, Noregs, Rússlands og Evrópusambandsins.
Aðalefni fundarins var mikilvægi áreiðanlegrar aflaskráningar sem ein af megin forsendum ábyrgrar og sjálfbærrar veiðistjórnunar.
Ráðherrarnir voru sammála um að áfram þyrfti að vinna að því að tryggja enn bætta og áreiðanlega aflaskáningu við allar veiðar og að því þyrfti að vinna sameiginlega meðal annars með virku og góðu samstarfi þeirra sem veiðarnar stunda. Veiðiupplýsingar, þar með talið vegna veiða úr sameiginlegum stofnum, þurfi að vera gegnsæjar og aðgengilegar. Þá séu áreiðanlegar og réttar upplýsingar um veiðar meðal annars grundvöllur vísindalegrar veiðiráðgjafar og í því sambandi þurfi að taka tillit til áhrifa allra veiða sem og samspils þeirra á allt vistkerfi sjávar.