Ný lög um bætta réttarstöðu skuldara hafa tekið gildi
Lög um bætta réttarstöðu skuldara sem samþykkt voru á Alþingi 10. júní síðastliðinn hafa nú tekið gildi. Lögin fela m.a. í sér að skiptastjóri þrotabús getur heimilað einstaklingi sem tekinn er til gjaldþrotaskipta að búa áfram í íbúðarhúsnæði í eigu þrotabúsins í allt að tólf mánuði. Sama á við þegar íbúðarhúsnæði er selt nauðungarsölu en þá getur eigandi húsnæðis fengið að vera þar áfram í tiltekinn tíma sem að öllu jöfnu yrði ekki lengri en sex mánuðir og aldrei lengri en tólf mánuðir. Hefur verið gerð breyting á 8. gr. almennra skilmála fyrir uppboðssölu á fasteignum sem kveður á um tímalengd og skilyrði fyrir áframhaldandi dvöl í fasteign við nauðungarsölu.
Nýju lögin taka til breytinga á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., lögum um nauðungarsölu og lögum um lögmenn og innheimtulögum. Helstu breytingarnar eru:
1. Frá áhvílandi veðskuldum verður undir öllum kringumstæðum dregið markaðsverð eignar óháð söluverði á nauðungarsölu.
2. Skiptastjórar geta heimilað einstaklingum áframhaldandi afnot íbúðarhúsnæðis í allt að 12 mánuði við gjaldþrotaskipti, gegn greiðslu fyrir þau afnot. Sama á við þegar íbúðarhúsnæði er selt nauðungarsölu. Er úrræði þetta hugsað til hagsbóta meðal annars fyrir fjölskyldur með börn, þannig að frekar gefist svigrúm til að finna annað húsnæði og tími til að flytja, t.d. með tilliti til skólagöngu barna.
3. Innheimtukostnaður lögmanna af kröfum er takmarkaður. Óheimilt er að leggja innheimtukostnað á þann hluta kröfu sem ekki er gjaldfallinn og leiðbeiningar um innheimtukostnað verða settar.
4. Skilgreint er hvað felst í löginnheimtu samkvæmt innheimtulögum og lögum um lögmenn.
Sjá almenna skilmála fyrir uppboðssölu á fasteignum o.fl. hér á vef Stjórnartíðinda.