Hoppa yfir valmynd
15. júlí 2010 Matvælaráðuneytið

Nr. 45/2010 - Strandveiðibátum heimiluð makrílveiði

Frá því að Jón Bjarnason tók við embætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur í ráðuneytinu verið lögð mikil áhersla á að auka vinnslu á makríl til manneldis. Þetta verði gert með samvinnu stjórnvalda og útgerða til að skapa sem mest verðmæti úr aflanum. Nú er að verða til mikil þekking á veiðum, vinnslu og markaðssetningu sem aftur mun auka verðmæti makrílsins fyrir okkur Íslendinga.

Af veiðum og vinnslu á makríl eru almennt góð tíðindi. Þannig hafa þegar veiðst 45.000 tonn það sem af er vertíð og ætla má að yfir 80% aflans hafi farið til manneldisvinnslu.

Sérstök ástæða er því til að skapa svigrúm fyrir nýjar veiðiaðferðir, sem líklegar eru til að skapa grundvöll fyrir fjölbreyttri vinnslu á verðmætum afurðum og auka atvinnu í sjávarbyggðum. Ennfremur þykir eðlilegt, vegna þess hve stutt er síðan farið var að veiða makríl hér í teljandi magni, að veita fleirum aðgang að veiðunum en þeim sem veitt hafa síðustu árin. 

Því hefur ráðherra látið breyta reglugerð um stjórn makrílveiða nr. 285/2010 þannig að fiskiskipum sem hafa leyfi til strandveiða verður heimilt að stunda makrílveiðar á handfæri og línu. Veiðarnar eru háðar sérstöku leyfi og skulu takmarkast af þeim 3000 tonnum af makríl sem ráðstafað var til línu- og handfæraveiða á fiskveiðiárinu 2009/2010.

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 285/2010 um stjórn makrílveiða íslenskra skipa árið 2010, með síðari breytingu.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta