Hafrannsóknastofnunin gaf út í byrjun júní 2010 tillögur sínar um afla fiskveiðiárið 2010/11. Skv. 3. gr. laga um stjórn fiskveiða skal sjávarútvegsráðherra, að þeim tillögum fengnum, ákveða með reglugerð heildarafla sem veiða má úr þeim nytjastofnum við Ísland sem nauðsynlegt er talið að takmarka veiðar á. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, hefur nú undirritað reglugerð um leyfilegan heildarafla fiskveiðiárið 2010/11. Reglugerðin tekur að mestu mið af tillögum Hafrannsóknastofnunarinnar en þó eru á því nokkrar undantekningar sem nánar verður fjallað um hér á eftir.
Ákvörðun heildaraflamarks að þessu sinni verður að skoða í ljósi þess að í gangi er vinna við endurskoðun á fiskveiðistjórnuninni. Starfandi er vinnuhópur sem í eiga sæti fjölmargir aðilar og ætlað er að hópurinn muni fljótlega skila af sér. Tillögur hans, ákvæði samstarfsyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar og vinna stjórnvalda og Alþingis í framhaldinu munu hafa í för með sér breytingar.
Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er tiltekið að veiðiheimildir skuli ákvarðast á grundvelli nýtingarstefnu sem gefin er út til lengri tíma. Hafrannsóknastofnunin hefur hafið undirbúning nýtingarstefnu í ufsa og ýsu og jafnvel fleiri tegundum, sem mun gera það kleift að setja fram slíka stefnu fyrir fleiri stofna en þorsk. Skiptar skoðanir hafa verið um nýtingarstefnuna í þorski og þá aflareglu sem nú er miðað við. Þorskstofninn hefur stækkað meira og fyrr en gert var ráð fyrir í eldri spám Hafrannsóknastofnunarinnar, þrátt fyrir að veitt hafi verið talsvert umfram aflareglu. Raunar hefur tvívegis verið aukið við þorskaflann um 30 þúsund tonn í hvort skipti á liðnum árum og síðast í janúar 2009. Með hliðsjón af þessu hefur Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ákveðið að setja á laggirnar samráðsvettvang um nýtingarstefnuna sem í eigi sæti m.a. fulltrúar stjórnvalda, atvinnugreinarinnar og fiskifræðinga. Fyrsta verkefni samráðsvettvangsins er að fara yfir aflaregluna í þorski og meta hvort ástæða er til að leggja til breytingu á henni með tilliti til breyttra aðstæðna og sterkari stöðu stofnsins. Verði lögð til breyting mun verða haft samráð við Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) m.a. með tilliti til sjálfbærni veiðanna. Næsta verkefni samráðsvettvangsins er að fjalla um, hvort hægt sé að mæla með að tekin verði upp nýtingarstefna vegna veiða á ufsa.
Það er mat sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jóns Bjarnasonar, að mjög mikilvægt sé að ítarleg kynning og umræða fari fram áður en nýtingarstefna er ákveðin fyrir einstakar fisktegundir til fjölda ára. Nauðsynlegt er því að Hafrannsóknastofnunin efli mjög kynningu á starfi sínu gagnvart sjómönnum, útgerðinni, fiskvinnslunni og almenningi.
Komið getur til lagabreytinga í vetur sem kveða á um breytta framkvæmd úthlutunar, verði um að ræða aukningu á magni í einstökum tegundum á fiskveiðiárinu.
Bent er á að veiðar á löngu og keilu og þó meira löngu á þessu fiskveiðiári, bera þess merki að upphafleg úthlutun veiðiheimilda skapi nú ójafnvægi. Augljóslega hafa veiðiheimildir verið of þröngt skornar og jafnvægi milli kerfa er raskað með tilheyrandi meðaflavandamálum og þörf fyrir tegundatilfærslur að sama skapi. Löngustofninn er án alls vafa í sókn og er að flytja sig á ný svæði.
Lagt verður fram frumvarp á Alþingi sem tekur til úthlutunar á veiðiheimildum í makríl fyrir næsta fiskveiðiár. Meginmarkmiðið verði að ná sem fjölbreyttustum notum af makríl í samræmi við þá framtíðarstefnu sem mörkuð verður um stjórn fiskveiða.
Gert er ráð fyrir að úthafsrækjuveiðar verði gefnar frjálsar á fiskveiðiárinu 2010/11, þar sem ekki hefur á neinu fiskveiði ári frá fiskveiðiárinu 2000/01 verið aflað upp í útgefið aflamark. Í þessu sambandi er vísað til skýrslu starfshóps sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins um veiðar á úthafsrækju frá árinu 2010.
Í henni segir:
“Að framansögðu virðist sem sóknarstýring gæti hentað við veiðistjórnun á úthafsrækju og myndi það líklega vinna gegn því að heimildir döguðu uppi í lok fiskveiðiárs, auk þess sem slík stýring byggir ekki á aflamarki sem leitt getur til millifærslu bolfisks. Einnig myndu afleiðingar óvissu í stofnmati á úthafsrækju væntanlega verða minni. Með sóknarstýringu á rækjuveiðum yrði upphaflega miðað við sóknartíma á tilteknu viðmiðunartímabili og sóknin stillt þannig við innleiðingu kerfisins að talið yrði að stofninn þyldi vel álagið. Eftir því sem rækjukannanir og afli á sóknareiningu í veiðunum breyttust sveiflaðist aflinn, en eðlilegast væri að skilgreina viðmiðunarmörk í afla á sóknareiningu eða í stofnmælingu sem kveði á um hvernig dregið yrði úr sókn eða hún aukin eftir mældum stærðum.”
Síðan segir í niðurstöðum vinnuhópsins:
“Með sóknarstýringu á úthafsrækjuveiðum mætti vinna gegn því að heimildir til úthafsrækjuveiða döguðu uppi. Um allverulega kerfisbreytingu yrði að ræða sem krefðist breytinga á löggjöf.”
Þessi ákvörðun er tekin til eins árs og henni er ætlað hvetja til betri nýtingar á úthafsrækju-stofninum og þannig verði sem mestum verðmætum náð. Í lok ársins verði staðan svo endurmetin. Gert er jafnfram ráð fyrir að lagt verði fram frumvarp á haustþingi um stýringu rækjuveiða fiskveiðiárið 2010/11.
Nú er karfa í fyrsta sinn skipt í gullkarfa og djúpkarfa við ákvörðun heildaraflamarks. Er það í samræmi við nýlegar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða.
Líkt og áður leggur Hafrannsóknastofnunin til mikinn samdrátt í veiðum á ýsu. Því miður er margt sem bendir til þess að áhyggjur stofnunarinnar eigi við rök að styðjast og því verði að fara mjög varlega í veiðum á ýsu á næstu árum og áframhaldandi samdráttur því óhjákvæmilegur. Fylgjast verður þó vel með stofninum og breytingum í göngumynstri.
Ráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar hvað ufsa varðar tekur mið af því að enn liggur ekki fyrir staðfest nýtingarstefna. Í því ljósi telur ráðuneytið að ekki sé tekin sérstök áhætta með ákvörðun óbreyttrar veiði á næsta fiskveiðiári.Hafrannsóknastofnunin mælir nú eingungis með 8.500 tonna afla af steinbít á næsta fiskveiðiári. Í ráðgjöf stofnunarinnar er ekki tekið tillit til takmörkunar á tegundatilfærslum á næsta ári. Með því að færa heildaraflamark ýmissa flatfisktegunda að raunverulegri veiði mun steinbítsafli minnka en nú er vænta niðurstöðu starfshóps ráðuneytisins um þetta efni, þar sem líklega verða lagðar til aðrar breytingar í sömu átt. Ráðuneytið mun jafnframt fara vel yfir, í samráði við Hafrannsóknastofnunina, hvernig háttað er friðun steinbíts á hrygningarslóð á Látragrunni yfir hrygningar- og klaktíma og hvort friða þurfi hrygningarslóð steinbíts á fleiri veiðisvæðum við landið. Þurfi að grípa til sérstakra víðtækari ráðstafana vegna þessa mun það verða gert.
Úthlutun á heildaraflamarki fyrir flesta flatfiskstofna tekur mið af ráðgjöf Hafrannsókna-stofnunarinnar og raunverulegum veiðum. Það er mat ráðuneytisins að fara þurfi vel yfir rannsóknir og veiðiþol þessara stofna og bæta nýtingu þeirra og kemur þá til álita, hvort núverandi kerfi sé ætíð það heppilegasta þegar um er að ræða stofna þar sem veiðin er að ákveðið stórum hluta meðafli.
Hafrannsóknastofnunin leggur til að beinum veiðum á lúðu skuli hætt. Starfandi hefur verið hópur á vegum ráðuneytisins um lúðuveiðar. Hann hefur ekki enn skilað af sér, en svo virðist sem grípa þurfi til fjölbreytilegri aðferða til verndar lúðustofninum en eingöngu stöðvunar beinna lúðuveiða. Nýjar aðferðir gætu m.a. falist í að gert yrði samkomulag við sjómenn um að sleppa lifandi lúðum undir tiltekinni stærð. Þannig mætti einnig auka verulega merkingar á uppvaxandi lúðu. Reynsla er fyrir þessari aðferð erlendis.
Ráðuneytið telur rétt að útgefið heildaraflamark fyrir grálúðu verði 13.000 tonn enda óumsamið um þennan stofn.
Áfram verður unnið að ýmsum verkefnum í samæmi við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar-flokkanna. Eins og þekkt er tekur gildi reglugerð um lokun sjö fjarða fyrir veiðum með dragnót 1. september næstkomandi. Settar verða upp sérstakar rannsóknir og vöktun til að fylgjast með lífríki þessara fjarða næstu fimm árin. Þessar rannsóknir og vöktun verða falin rannsóknaaðilum í heimabyggð eins og kostur er. Augljóst er svo að haldið verður áfram á þeirri braut að vernda grunnslóðina enn frekar.
Eins og kunnugt er greiðir útgerð fiskiskipa svokallað veiðigjald í ríkissjóð. Gjaldið er lagt á úthlutaðar aflaheimildir eða landaðan afla einstakra tegunda. Gjaldið tekur mið af afkomu greinarinnar hverju sinni. Áætlanir gera ráð fyrir að veiðigjald skili 2.700 - 2.900 m.kr. í ríkissjóð á fiskveiðiárinu 2010/11og hafi þá hækkað um helming, en á yfirstandandi fiskveiðiári er áætlað að gjaldið skili um 1.400 m.kr. í ríkissjóð.
Tafla
Ákvörðun um leyfilegan heildarafla fiskveiðiárið 1. september 2009 til 31. ágúst 2010:
Tegund
Aflamark
2008/2009
Ráðgjöf Hafrannsókna-stofnunarinnar
2009/2010
Ákvörðun 2009/2010
Ráðgjöf Hafrannsókna-stofnunarinnar 2010/2011
Ákvörðun
2010/2011
Þorskur
162.500
150.000
150.000
160.000
160.000
Karfi
50.000
40.000
50.000
30.000/10.000
30.000/10.000
Ýsa
93.000
57.000
63.000
45.000
50.000
Ufsi
65.000
35.000
50.000
40.000
50.000
Grálúða
15.000
5.000
12.000
5.000
13.000
Steinbítur
13.000
10.000
12.000
8.500
12.000
Skrápflúra
1.000
200
1.000
200
200
Skarkoli
6.500
5.000
6.500
6.500
6.500
Sandkoli
1.000
500
1.000
500
500
Keila
5.500
5.000
5.500
6.000
6.000
Langa
7.000
6.000
7.000
7.000
7.000
Þykkvalúra
2.200
1.800
2.200
1.800
1.800
Skötuselur
3.000
2.500
2.500
2.500
2.500
Langlúra
2.200
1.600
2.200
1.300
1.300
Úthafsrækja
7.000
7.000
7.000
7.000
frjálsar
Humar
2.200
2.200
2.200
2.100
2.100
Hafa samband
Ábending / fyrirspurn
Skilaboðin hafa verið send ráðuneytinu til afgreiðslu.