Um meðhöndlun á makrílafla
Nú þegar strandveiðibátar hafa fengið heimild til að stunda makrílveiðar á handfæri og línu vilja Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og Landssamband smábátaeigenda vekja athygli á hversu viðkvæmur fiskur makríllinn er.
Þannig er nauðsynlegt að aflinn sé strax kældur í krapa. Þurfa þeir bátar sem að makrílveiðum eru að tryggja að ávallt sé nægur ís um borð. Til að ná hámarks kælingu er 1% salt sett í krapann til að ná -1 gráðu kælingu. Ekki er ráðlegt að vera lengur en daginn úti vegna rauðátu sem étur sig út í gegn um kviðinn ef of langur tími líður frá veiðum í frost.
Talið er að makríllinn sé í bestu ásigkomulagi, út frá markaðslegu sjónarmiði, á haustmánuðum og fram á vor. Makríll sem er veiddur við Ísland og er rétt meðhöndlaður fyrir vinnslu og unninn á réttan máta selst fyrir gott verð í Evrópu og Asíu.