Hoppa yfir valmynd
27. júlí 2010 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Álagning opinberra gjalda fyrir árið 2010

Fréttatilkynning nr. 18/2010

Álagning opinberra gjalda á einstaklinga og þá sem stunda atvinnurekstur í eigin nafni fyrir árið 2010 liggur nú fyrir.

Um er að ræða endanlega álagningu á tekjuskatti, fjármagnstekjuskatti og útsvari á tekjur ársins 2009, en meginhluti álagningarinnar hefur þegar verið innheimtur í formi staðgreiðslu árið 2009 eða fyrirframgreiðslu í ár.

Einnig er um að ræða álagningu útvarpsgjalds og gjalds í framkvæmdasjóð aldraðra. Þá er í fyrsta sinn lagður á auðlegðarskattur og fjármagnstekjuskattur í tveimur þrepum fyrir árið 2009. Jafnframt var frá miðju ári 2009 lagður á tímabundinn 8% hátekjuskattur á tekjur umfram 4,2 m.kr. á seinni helmingi ársins. Auk þess eru í álagningunni ákvarðaðar greiðslur barnabóta og vaxtabóta. Frekara talnaefni um álagningu skatta á einstaklinga og ákvörðun barna- og vaxtabóta fyrir árið 2010 verður fljótlega að finna á vefsíðu ríkisskattstjóra (http://www.rsk.is/).

Helstu niðurstöður álagningarinnar nú eru eftirfarandi:

  • Heildarfjöldi framteljenda við álagningu árið 2010 er 261.436. Framteljendum fækkar nú í fyrsta skipti milli ára, um 6.058 einstaklinga, eða 2,3%.
  • Samanlögð álagning tekjuskatta og útsvars nemur 213,8 milljörðum króna og lækkar um 3,4% frá fyrra ári. Álagðir tekjuskattar til ríkissjóðs skiptast í tekjuskatt annars vegar og fjár­magns­tekjuskatt hins vegar en útsvarið er tekjustofn sveitarfélaga.
  • Almennan tekjuskatt, 87,9 milljarða króna greiða 158.600 einstaklingar eða 67% þeirra sem höfðu jákvæðan tekjuskatts- og útsvarsstofn. Þetta hlutfall hefur ekki verið lægra síðan 2002. Almenna tekjuskatthlutfallið nam 24,1% en persónuafsláttur hækkaði um 98.052 kr frá fyrra ári eða um 24%. Þessi mikla hækkun á persónuafslætti skýrir að stórum hluta fækkun tekjuskattsgreiðenda um tæplega 21 þúsund einstaklinga, eða tæp 12%. Um mitt ár var lagður á sérstakur tímabundinn hátekjuskattur á skattstofn umfram 4,2 m.kr. á seinni helmingi ársins, eða sem svarar til 700 þús. kr. í mánaðartekjur  Hann nam 8% af þeim tekjum sem voru umfram markið. Álagning þessa tímabundna skatts nemur samtals um 2,1 mia kr. og hann greiða um 13,000 gjaldendur.
  • Útsvar til sveitarfélaga nemur alls 110,2 milljörðum króna og hækkar þessi tekjustofn um 1,3% frá fyrra ári. Gjaldendur útsvars eru 250.000 og hafði fækkað um tæplega 7.000 frá fyrra ári, eða 2,7%. Álagt útsvar á hvern gjaldanda hækkaði um 4,2% milli ára.
  • Álagður fjármagnstekjuskattur einstaklinga nemur 15,7 milljörðum króna og lækkar um 20,4% milli ára. Greiðendur fjármagnstekjuskatts eru tæplega 183 þúsund. Fjármagnstekjuskattur var 10% fyrri helming ársins 2009, en á seinni helming þess var skatturinn lagður á í tveimur þrepum.  Á fjármagnstekjur allt að 250.000 kr (500.000 kr hjá hjónum) á tímabilinu júlí-desember 2009 var skatturinn óbreyttur en 15% á þá fjárhæð sem tekjurnar voru umfram þessi mörk. Samsetning fjármagnstekna heldur áfram að breytast. Sem dæmi var hagnaður af sölu hlutabréfa 62% fjármagnstekna árið 2007 en einungis um 10% árið 2009. Framtaldar vaxtatekjur námu 78,7 milljörðum á árinu 2009 og höfðu dregist saman um 28% frá fyrra ári.
  • Auðlegðarskattur er nú lagður á í fyrsta sinn. Hann nemur 1,25% af eignum umfram skuldir ef nettóeignin er yfir 90 milljónum króna hjá einstaklingi en 120 m.kr. hjá hjónum. Auðlegðarskatt greiða 3.817 aðilar, samtals 3.817 m.kr. Hjón greiða skattinn sitt í hvoru lagi og því eru fjölskyldur sem hann greiða færri en þetta.
  • Framtaldar eignir heimilanna námu 3.804 milljörðum króna  í lok síðasta árs og höfðu þær aukist um 4,0% frá fyrra ári. Fasteignir töldust 2.492 milljarðar að verðmæti eða 65,5% af eignum og verðmæti þeirra hafði aukist um 2,3% milli ára.  Eigendum fasteigna fækkaði milli ára um 0,7% en það hefur ekki gerst áður. Framtaldar skuldir heimilanna námu alls 1.892 milljörðum króna í árslok 2009 og höfðu þær vaxið um 12,4% frá fyrra ári. Framtaldar skuldir vegna íbúðar­kaupa jukust um 8,8%, og námu 1.151 milljarði króna. Skuldir vegna íbúðarkaupa námu 46,2 % af verðmæti framtalinna fasteigna á árinu 2009. Hlutfall skulda af verðmæti fasteigna heldur áfram að hækka og hefur nú hækkað um 8 prósentur frá árinu 2000.
  • Á þessu ári verða greiddir út um  10 milljarðar króna í barnabætur samanborið við 9,6 milljarða króna í fyrra sem er 3,5 % aukning. Þeim sem bótanna njóta fjölgar um 1% frá síðasta ári. Meðalbætur á hverja fjölskyldu hækka því um 2,4%.
  • Ákvarðaðar vaxtabætur vegna vaxtagjalda af íbúðarlánum, sem einstaklingar greiddu af á árinu 2009, nema 11,3 milljörðum króna í ár.  Vaxtabætur fá tæplega 70.000 fram­teljendur og hefur þeim fjölgað um 7,2% milli ára.  Meðalvaxtabætur eru nú 163 þúsund á hvern vaxtabótaþega og hafa hækkað um 5,6% milli ára en þeim er skipt á milli hjóna og sambýlisfólks.
  • Álagning útvarpsgjalds nemur 3,1 milljarði króna, eða 17.200 kr á hvern framteljanda sem greiðir tekjuskatt og er á aldrinum 16-69 ára. Greiðendum útvarpsgjalds fækkar um tæplega 7 þúsund milli ára. Gjald í framkvæmdasjóð aldraðra nemur 1,5 milljörðum króna  og hækkar um 6,1% frá fyrra ári. Gjaldið var hækkað um 11,5% milli ára, úr 7.534 krónum í 8.400 krónur, en greiðendum fækkar um tæplega 5%.
  • Hinn 1. ágúst n.k. koma til útborgunar úr ríkissjóði til framteljenda 17,2 milljarðar króna eftir skuldajöfnun á móti ofgreiddum sköttum. Vaxtabætur eru stærsti hluti útborgun­arinnar en  þær nema 9,3 milljörðum, 82% af öllum vaxtabótum. Fjórðungur barnabóta verða greiddar út og nemur upphæð útborgunarinnar 2,6 milljörðum króna. Ofgreidd stað­greiðsla nemur 5,3 milljörðum króna.  Barnabætur eru greiddar út fjórum sinnum á ári og kemur síðasti hluti þeirra, 2,7 milljarðar króna, til útborgunar 1. nóvember n.k.
  • Álagðir skattar sem koma til greiðslu frá september til ársloka nema 17,7 milljörðum króna. Er þar aðallega um að ræða tekjuskatt og útsvar, eftirágreiddan fjármagnstekjuskatt og auðlegðarskatt. 

Fjármálaráðuneytið 28. júlí 2010

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta