Kaup Magma Energy Sweden AB á hlutafé í HS Orku hf
Efnahags- og viðskiptaráðherra hefur í dag sent HS Orku hf. og Magma Energy Sweden AB bréf þar sem upplýst er að á vegum stjórnvalda sé að fara af stað sjálfstæð og óháð rannsókn sem lúti að lögmæti kaupa Magma Energy Sweden AB á hlutafé í HS Orku hf. Jafnframt að ráðuneytið hafi upplýsingar um að kvörtun hafi verið send vegna málsins til Umboðsmanns Alþingis. Þá hafi ríkisstjórnin ákveðið að sett verði af stað vinna sem miði að endurskoðun á lagaumhverfi er varðar eignarhald á orkufyrirtækjum, þ. á m. takmörkunum á eignarhaldi einkaaðila. Málið sé til pólitískrar skoðunar og stefnumótunar en slík skoðun kunni að hafa áhrif á framtíðarstöðu opinberra jafnt sem einkaaðila á sviði orkumála. Ríkisstjórnin sé staðráðin í því að vinda ofan af einkavæðingu innan orkugeirans og tryggja eftir megni að mikilvægustu orkufyrirtæki landsins séu á forræði opinberra aðila.
Efnahags- og viðskiptaráðherra og ríkisstjórnin hafa ekki tekið endanlega afstöðu til fjárfestingar Magma Energy Sweden AB á hlutafé í HS Orku hf. en séu nú að yfirfara framtíðar rekstrar- og lagaumhverfi fyrirtækja í orkugeiranum.