Breyting á áður tilkynntri skipan nefndar vegna orku- og auðlindamála
Eftir að forsætisráðuneytið birti tilkynningu 3. ágúst sl. um skipun nefndar til að meta lögmæti kaupa fyrirtækisins Magma Energy Sweden AB á eignarhlutum í HS Orku ehf. og starfsumhverfi orkugeirans hér á landi bárust ráðuneytinu ábendingar um hugsanlegt vanhæfi eins nefndarmanns, þ.e. Sveins Margeirssonar. Ráðuneytið leitaði m.a. álits lektors í stjórnsýslurétti við Háskóla Íslands sem komst að þeirri niðurstöðu að með tilliti til hagsmuna og væntinga þeirra viðskiptaaðila sem um væri að ræða í málinu, en einnig með tilliti til trausts almennings á stjórnsýslunni og að því gættu að í málinu reyndi á mikla hagsmuni, væri það talið málefnalegt að ráðherra horfði til sömu viðmiða um hæfi einstaklinga til þátttöku í meðferð málsins og ef stjórnsýslulögin hefðu gilt um meðferð þess. Sveini Margeirssyni hefur verið gerð grein fyrir því að af ofangreindum ástæðum hafi verið fallið frá því að skipa hann í nefndina og biðst ráðuneytið velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að hafa valdið honum.