Stefna um opinbera háskóla
Stefna mennta- og menningarmálaráðherra er að standa vörð um starfsemi opinberu háskólanna með því að stofna samstarfsnet þeirra með hugsanlega sameiningu í huga. Markmiðið er þríþætt: Í fyrsta lagi að efla háskólakennslu, rannsóknir og nýsköpun til styrktar framtíðaruppbyggingu íslensks samfélags. Í öðru lagi að hagræða í rekstri háskólanna þannig að fjármunir nýtist sem allra best. Í þriðja lagi að halda uppi öflugri og fjölbreyttri háskólastarfsemi víðs vegar á landinu.
Í þessu efni taka stjórnvöld meðal annars mið af skýrslunni Education, Research and Innovation Policy: A new direction for Iceland (Christoffer Taxell, Richard Yelland, Iain Gillespie, Markku Linna, Arnold Verbeek, Reykjavík 2009).
1. MARKMIÐ
Öflugt samstarfsnet opinberra háskóla verði starfandi á Íslandi árið 2012. Að slíku háskólaneti standa allir opinberu háskólarnir þ.e. Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Landbúnaðarháskóli Íslands og Hólaskóli - Háskólinn á Hólum. Miðað er við að aðrar háskóla- og rannsókna¬stofnanir geti tekið þátt í starfi netsins, óháð rekstrarformi.
Háskóli Íslands verði þungamiðjan í netinu enda langstærsti og öflugasti háskólinn á Íslandi. Háskólanetinu er m.a. ætlað að bjóða upp á fjölbreytt háskólanám á öllum helstu fræðasviðum. Skipulag náms og rannsókna miðast við að háskólarnir vinni náið saman og njóti krafta allra núverandi skóla sem starfi áfram undir eigin nafni.
Gert er ráð fyrir að nemendur hafi aukin tækifæri til samsetningar náms með því að sækja námskeið í fleiri en einum skóla.
Fjarkennsla verður notuð í auknum mæli til að bjóða upp á fjölbreytt nám víða á landinu með samstarfi við þekkingarsetur og símenntunarmiðstöðvar.
2. LEIÐIR
- Viðeigandi breytingar verði gerðar á lögum um opinbera háskóla, meðal annars til að allir háskólar, þar á meðal landbúnaðarskólarnir, starfi samkvæmt sömu lögum. Hlutverk háskóla landbúnaðarins verði skilgreind sérstaklega.
- Skipulag kennslu og rannsókna og verkaskipting háskólanna verði hluti af viðfangsefnum sameiginlegrar stjórnsýslu þeirra.
- Eitt gæðakerfi og samræmt gæðamat gildi fyrir alla skólana í háskólanetinu.
- Vefgátt verði starfandi fyrir opinbera háskóla á Íslandi með sameiginlegri umsóknargátt.
- Eitt upplýsingakerfi verði notað fyrir alla skólana í netinu með sameiginlegu nemenda-bókhaldi og kennslu- og námsvef fyrir fjarkennslu.
- Stjórnsýsla og stoðþjónusta háskólanna verði skipulögð sem ein heild þótt starfsmenn verði staðsettir víða.
- Sameiginleg miðstöð framhaldsnáms verði starfrækt til að bera ábyrgð á skipulagi og gæðum framhaldsnáms með höfuðáherslu á doktorsnám.
- Eitt vinnumatskerfi sem hvetur til rannsókna og góðra kennsluhátta verði notað af öllum skólunum í netinu.
- Samstarf við þekkingarsetur og símenntunarmiðstöðvar á landsbyggðinni verði skilgreint.
3. VINNULAG
Mikill munur er á milli opinberu háskólanna hvað varðar fjölda stúdenta, fjölda starfsfólks og viðurkenndra fræðasviða. Sjö manna verkefnisstjórn verður skipuð fulltrúum háskólanna þar sem að nokkru verður tekið mið af stærð þeirra og umfangi. Háskóli Íslands tilnefnir tvo fulltrúa í verkefnisstjórnina auk formanns, Háskólinn á Akureyri tvo fulltrúa, Landbúnaðarháskóli Íslands einn fulltrúa og Hólaskóli - Háskólinn á Hólum einn fulltrúa. Verkefnisstjórnin semur verk- og tímaáætlun sem fjallar um hvernig hægt sé að gera samstarf skólanna sem nánast og hrindir henni í framkvæmd.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið vinnur náið með verkefnisstjórn og fylgist með framgangi verkefnisins. Samhliða vinnu verkefnisstjórnar verða lög um opinbera háskóla tekin til endurskoðunar til að gera þær breytingar sem nauðsynlegar eru til að stefna stjórnvalda nái fram að ganga.
4. VERKEFNA- OG TÍMAÁÆTLUN
Júlí 2010 - Skipun verkefnisstjórnar sem stýrir verkefninu og útfærir einstaka þætti þess.
Október 2010 - Verkefnaáætlun lögð fram. Helstu þættir hennar verða:
- Samræmt gæðakerfi og gæðamat fyrir alla skólana í háskólanetinu.
- Skipulag á samstarfi skólanna um kennslu og rannsóknir.
- Sameiginleg vefsíða fyrir umsóknir nemenda og samþætt upplýsingakerfi.
- Stjórnsýsla og stoðþjónusta opinberu háskólanna samræmd.
- Allir háskólarnir taki upp sambærilegt vinnumatskerfi.
- Starfrækt verði sameiginleg miðstöð framhaldsnáms.
- Undirbúningur að öflugu fjarnámsneti.
Nóvember 2010 - Rekstrarlegri aðgreiningu staðar-og skólahalds á Hólum ljúki.
Apríl 2011 - Frumvarp til laga um breytingu á lögum um opinbera háskóla lagt fram á Alþingi.
Maí 2011 - Skilgreining á tengslum og samstarfi við þekkingarmiðstöðvar og símenntunarmiðstöðvar ljúki.
September 2012 - Markmið um stofnun samstarfsnets verði komið að fullu til framkvæmda.
Í fjárlögum og fjáraukalögum verður gert ráð fyrir sérstöku framlagi til að styðja við framgang þessarar stefnu.
Reykjavík, 9. ágúst 2010
Mennta- og menningarmálaráðuneytið
- Stefna um opinbera háskóla (PDF - 45.4KB)