Hoppa yfir valmynd
17. ágúst 2010 Utanríkisráðuneytið

Íslensk stjórnvöld veita Pakistan neyðaraðstoð

Íslensk stjórnvöld munu veita 23 m.kr. til neyðaraðstoðar á hamfarasvæðunum í Pakistan samkvæmt ákvörðun utanríkisráðherra sem hann kynnti á fundi ríkisstjórnar í morgun. Síðan monsúnrigningar í Pakistan hófust í júlí sl. hefur landið orðið fyrir verstu flóðum í manna minnum. Ástandið í landinu er mjög alvarlegt og er áætlað að meira en 1300 manns hafi látist í hamförunum. Áhrif flóðanna eru víðtæk og mikil hætta er á að dánartíðni eigi eftir að aukast m.a. vegna aukinnar sjúkdómahættu. Flóðin hafa haft áhrif á um 14 milljónir manna og þar af þarfnast um 6 milljónir matvælaaðstoðar. Samgöngur á hamfarasvæðunum eru lamaðar þar sem flætt hefur yfir flesta vegi og önnur samgöngumannvirki. Yfir 4500 bæir hafa farið undir vatn og margir íbúar eru því án húsaskjóls.

Framlag Íslands skiptist þannig að 15 m.kr. (120.000 Bandaríkjadalir) munu renna til verkefna Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP) og 8 m.kr. til verkefna á vegum félagasamtaka. Fylgt er verklagsreglum utanríkisráðuneytisins um samstarf við frjáls félagasamtök við úthlutun styrkja og skulu umsóknir félagasamtaka berast utanríkisráðuneytinu eigi síðar en föstudaginn 20. ágúst kl. 12:00 á netfangið [email protected].

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta