Hoppa yfir valmynd
18. ágúst 2010 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Stækkun friðlands í Þjórsárverum.

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra
svsv2

Eftirfarandi grein Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra birtist í Morgunblaðinu 17. ágúst 2010.

Um árabil hefur verið unnið að stækkun friðlands Þjórsárvera. Svo virðist þó sem nokkurs misskilnings gæti í umfjöllun Sjálfstæðismanna undanfarna daga. Mér er bæði ljúft og skylt að upplýsa um nokkrar staðreyndir málsins og freista þess að eyða þeim misskilingi sem upp virðist kominn í þeirra röðum.

Samhljómur um stækkun

Kveðið er á um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og eru áherslur umhverfisráðherra í samræmi við þá yfirlýsingu eins og gefur að skilja. Stækkun friðlandsins er ekki byggð á geðþóttaákvörðun umhverfisráðherra heldur á tillagan sér allnokkra sögu. Árið 2003 þegar unnið var að náttúruverndaráætlun 2004 – 2008 lagði Umhverfisstofnun fram tillögu til umhverfisráðuneytisins um að friðlandið í Þjórsárverum yrði stækkað verulega til norðausturs og vesturs en þó einkum til suðurs og náði stækkunartillagan suður að Sultartangalóni beggja vegna Þjórsár.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar 2007 var sérstaklega tekið fram að „[s]tækkun friðlandsins í Þjórsárverum verði tryggð þannig að það nái yfir hið sérstaka votlendi veranna.” Á grundvelli þess lagði þáverandi umhverfisráðherra, Þórunn Sveinbjarnardóttir, fyrst fram tillögu til þingsályktunar um náttúruvernaráætlun 2009-2013 sem m.a. fól í sér tillögu um að friðlandið í Þjórsárverum yrði stækkað til suðurs þannig að Eyvafen og svæði suður af því yrðu friðlýst sem hluti af friðlandinu. Þetta er í samræmi við tillögur starfshóps sem Þórunn Sveinbjarnardóttir skipaði til þess að undirbúa áætlunina, en honum var m.a. falið að gera tillögu um friðun Þjórsárvera. Tillögur hópsins byggja á rannsóknum á náttúru Íslands og upplýsingum frá Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands um verndargildi og ný svæði á náttúruverndaráætlun.

Á Alþingi hefur verið lagt fram frumvarp til laga um verndar- og nýtingaáætlun vegna fallvatna háhitasvæða og er frumvarpið til meðferðar hjá iðnaðarnefnd. Það frumvarp byggir m.a. á vinnu undanfarinn áratug við undirbúning að rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Er frumvarpinu ætlað að skapa grundvöll fyrir áframhaldandi vinnu við mat og flokkun á virkjunarkostum. Í niðurstöðum faghóps I, Náttúra- og menningarminjar,segir m.a.Það var mat hópsins að nokkur svæði, einkum vatnasvið Jökulsár á Fjöllum, Torfajökulssvæðið/Friðland að fjallabaki, Þjórsárver, syðri hluti gosbeltisins við Skaftá/Langasjó/Tungnaá, Vonarskarð og Markarfljót væru gríðarlega verðmæt.“

Nú virðist sem gamall draugur virkjanaáforma við Norðlingaöldu sé að bæra á sér enda sjálfstæðismenn væntanlega nýtt sumarið í að leita uppbyggilegra tillagna fyrir land og þjóð. Í anda þessara nýju en þó gömlu hugmynda halda þeir því fram að engin ástæða sé til að stækka friðlandið til suðurs þar sem á því svæði sé einfaldlega ekkert sem krefst friðunnar. Þessi fullyrðing kemur á óvart því í ritsjórnargrein Morgunblaðsins 17. janúar 2006 segir m.a.: Málefni Norðlingaölduveitu og Þjórsárvera hafa enn verið í brennidepli að undanförnu, eftir að Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra hafnaði því fyrir áramót að staðfesta þann hluta af svæðisskipulagi hálendisins, sem snýr að veitunni. . . .Gild rök eru fyrir því að vernda Þjórsárverin í heild. Náttúruverndargildi þeirra er einstakt. Þau eru stærsta og fjölbreyttasta freðmýri landsins. Þau eru flæðiengi, sem eru sjaldgæf á hálendi Íslands. Verin hafa verið kölluð fræbanki og lífræn framleiðni er þar margföld á við auðnirnar í kring. Þar er tegundafjölbreytni plantna, smádýra og fugla hvað mest á hálendinu. Þau eru mikilvægasta varpsvæði heiðagæsar í heiminum og njóta verndar ákvæða Ramsar-sáttmálans um votlendi, sem hefur alþjóðlegt gildi. Allt þetta þýðir að í Þjórsárverum liggja mikil og einstök verðmæti, sem þjóðin hlýtur að vilja varðveita í lengstu lög“. Við þessi góðu rök má bæta að Eyvafen er hluti af því svæði sem fellur utan suðurmarka núverandi friðlands og er það hluti af hinu sérstaka votlendi veranna. Náttúrufræðistofnun Íslands hefur bent á að sjaldgæfar og mikilvægar vistgerðir hálendisins, s.s. rústamýravist og sandmýravist finnist á svæðinu utan friðlandsins, sbr. rökstuðning sem fram kemur m.a. í náttúruverndaráætlun 2009-2013 og skýrslu stofnunarinnar “Vistgerðir á miðhálendi Íslands. –  Flokkun, lýsing og verndargildi”.

Því er jafnframt haldið fram að andstaðan við núverandi áform Landsvirkjunar um Norðlingaölduveitu séu ýmist byggð á misskiliningi eða vanþekkingu.Verið sé að rugla saman eldri hugmyndum um risavaxið uppistöðulón við nýrri hugmyndir sem fela í sér nýtt miðlunarlón sem verði ekki nema 2 – 3 ferkílómetrar að stærð og svo gott sem ekkert gróið svæði fari undir vatn yrði veituframkvæmdin að veruleika, því mestmegnis yrði hið litla lón í árfarveginum. Þessi fullyrðing stenst ekki því það lón sem áætlað er að mynda, verði af framkvæmdum, mun ná töluvert út fyrir árfarveginn og inn í Eyvafen og í nærliggjandi gróðurlendi. Breytt rennsli mun hafa áhrif á fossana og áhrifa mun gæta á landslagsmyndina því áætlað er að mannvirki verði staðsett við jaðar núverandi friðlands.

Sérstaða á heimsvísu.

Stækkun friðlands í Þjórsárverum eru eitt mikilvægasta náttúruverndarmál á Íslandi til langs tíma. Sérstaða veranna er á heimsvísu. Pólitískar áherslur síðustu 6 ára a.m.k. sýna að allir stjórnmálaflokkar hafa gert sér grein fyrir mikilvægi svæðisins og þess að friðlandið væri stækkað. Það vekur því furðu að Sjálfstæðisflokkurinn ætli sér nú að berjast fyrir því að Norðlingaölduveita komi til framkvæmda þegar enginn stjórnmálamaður hefur séð ástæðu til þess um árabil að draga í efa tillögur fagstofnana umhverfisráðuneytisins um stækkun friðlandsins og Alþingi hefur samþykkt náttúruverndaráætlun 2009 til 2013 þar sem gert er ráð fyrir stækkuninni. 

Umhverfisstofnun hefur fundað með sveitarfélögum sem í hlut eiga varðandi væntanlega stækkun og almennt ríkir mikill vilji og skilningur á því að hér er einstakt svæði á ferðinni sem rétt er að taka frá fyrir komandi kynslóðir og í þágu náttúru landsins og jarðarinnar. Skammtímahagsmunir eða pólitískt þjark mega ekki verða til þess að sá skilningur láti undan síga.

Svandís Svavarsdóttir
umhverfisráðherra

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta