Grundaskóli áfram leiðtogaskóli í umferðarfræðslu
Fulltrúar Grundaskóla á Akranesi og Umferðarstofu ásamt samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skrifuðu í dag undir áframhaldandi samning um samvinnu um umferðarfræðslu í skólum. Greitt er eitt stöðugildi á þessu ári til að sinna verkefninu.
Samningurinn er rammasamningur um umferðarfræðslu í grunnskólum landsins og verður Grundaskóli áfram móðurskóli í því verkefni og öðrum grunnskólum til fyrirmyndar og ráðgjafar. Markmiðið með samningnum er að efla umferðarfræðslu í skólum og stuðla að fækkun umferðarslysa með markvissri fræðslu.
Verkefnisstjóri í Grundaskóla sinnir umferðarfræðslu sérstaklega og svarar erindum frá öðrum skólum og skipuleggur námskeið og fræðslufundi fyrir kennara. Þá munu samningsaðilar fylgja eftir umferðarvefnum umferd.is í samvinnu við Námsgagnastofnun og kynna vefinn fyrir öðrum skólum.
Samninginn undirrituðu Hrönn Ríkharðsdóttir, fyrir hönd Grundaskóla, Gunnar Geir Gunnarsson, fyrir hönd Umferðarstofu og Kristján L. Möller, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.