Hoppa yfir valmynd
26. ágúst 2010 Matvælaráðuneytið

Nr. 50/2010 - Innflutningur á WTO tollkvótum - ekkert álit frá umboðsmanni Alþingis

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, vísar til umræðu undanfarið varðandi innflutning landbúnaðarafurða á grundvelli WTO-tollkvóta.

Eins og kunnugt er breytti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, reiknireglu við útreikning á tollum vega úthlutunar á svökölluðum WTO tollkvótum á árinu 2009. Breytingin fólst í því að í stað „magntolla“, sem er ákveðin krónutala á hvert kíló, var lagður á „verðtollur“ sem er % tollur og leggst hann á verðmæti innfluttrar vöru. Þetta var að sjálfsögðu gert innan ramma íslenskra laga og alþjóðasamninga.

Félag atvinnurekenda (FA) ásamt Samtökum verslunar og þjónustu (SVÞ) hafa á undanförnum dögum gagnrýnt ráðherra á opinberum vettvangi fyrir þetta. Komið hefur fram að SVÞ hefur sent umboðsmanni Alþingis kæru vegna málsins. Sömuleiðis hefur FA vitnað til nýlegs bréfs umboðsmanns varðandi úthlutun á tollkvótum og túlkað það þannig að umboðsmaður taki undir gagnrýni þeirra. Af þessu tilefni vill ráðuneytið taka fram að umrætt bréf umboðsmanns fjallaði um beiðni Sælkeradreifingar ehf. um endurúthlutun á tollkvótum og þar af leiðandi um óskylt mál. Tekið skal fram að umboðsmaður taldi ekki tilefni til að aðhafast frekar út af þeirri kvörtun. Því gætir þess misskilnings, að fyrir liggi að umboðsmaður Alþingis hafi fjallað um ofangreinda breytingu á reiknireglu. Því fer fjarri.

Í gær boðaði ráðherra fulltrúa framangreindra félaga á sinn fund til að hlýða á sjónarmið þeirra og var skipst á skoðunum. Í máli ráðherra kom fram að hann taldi að um löglega ákvörðun væri að ræða. Eftir sem áður varð það að samkomulagi milli aðila að fara sameiginlega yfir þessi mál á næstu vikum.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta