Úttektir á starfsemi leik-, grunn- og framhaldsskóla
Mennta- og menningarmálamálaráðuneyti auglýsir eftir aðilum til að taka að sér verkefni á sviði úttekta á starfsemi leik-, grunn- og/eða framhaldsskóla á haustmisseri 2010.
Mennta- og menningarmálamálaráðuneyti auglýsir hér með eftir aðilum til að taka að sér verkefni á sviði úttekta á starfsemi leik-, grunn- og/eða framhaldsskóla á haustmisseri 2010 og skal verkefnið innt af hendi á tímabilinu október til desember. Um er að ræða stofnanaúttektir á þremur skólum á hverju skólastigi. Úttektirnar eru gerðar í samræmi við ákvæði 20. gr. laga nr. 90/2008 um leikskóla, 38. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla og 42. gr. laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla, sjá www.menntamalaraduneyti.is/log-og-reglugerdir/
Sækja má um allar úttektirnar á hverju skólastigi eða hluta þeirra. Gert er ráð fyrir að úttekt í hverjum skóla sé í höndum tveggja til þriggja manna teymis. Mikilvægt er að a.m.k. einn einstaklingur í teyminu hafi nokkurra ára reynslu af kennslu á viðkomandi skólastigi en saman skal teymið hafa menntun og reynslu á sviði úttekta og skólastarfs á viðkomandi skólastigi. Einstaklingar, teymi, fyrirtæki og stofnanir geta sótt um.
Umsóknir ásamt upplýsingum um menntun og starfsferil skulu berast ráðuneytinu fyrir 16. september nk. Nánari upplýsingar gefa Margrét Harðardóttir og Védís Grönvold á mats- og geiningarsviði ráðuneytisins.