Hoppa yfir valmynd
27. ágúst 2010 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fréttatilkynning vegna bréfaskipta milli fjármálaráðuneytisins og framkvæmdastjórnar Evrópusambandins um  innstæðutryggingar

Fjármálaráðuneytið, fréttatilkynning nr. 21/2010

Fréttatilkynning vegna bréfaskipta milli fjármálaráðuneytisins og framkvæmdastjórnar Evrópusambandins vegna innstæðutrygginga.

Í tilefni af fyrirspurnum frá fjölmiðlum um bréfaskipti fjármálaráðherra við Michel Barnier, sem fer með innri markaðsmál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, í kjölfar þess að skrifstofa hans lét í lok júlímánaðar norskum fjölmiðli í té skrifleg svör varðandi innstæðutryggingar og samningsbrotamálið sem Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) rekur á hendur stjórnvöldum vegna Icesave, óskar fjármálaráðuneytið að taka fram eftirfarandi:

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum svaraði framkvæmdastjórnin skriflegu erindi frá norska fréttavefnum ABC Nyheter þar sem leitað er svara við ýmsum atriðum er varða innleiðingu og framkvæmd tilskipunar um innstæðutrygginga. Í svörum framkvæmdastjórnarinnar kemur m.a. fram það mat að framkvæmd íslenskra stjórnvalda á þessari tilskipun hafi verið áfátt (e. defective) með því að hafa ekki séð til þess að tryggingakerfið sem komið var á fót á grundvelli skuldbindinga í þesari tilskipun væri nægilega öflugt miðað við stærð og áhættu í íslenska bankakerfinu.

Af þessu tilefni fór fjármálaráðherra þess á leit að framkvæmdastjórnin léti í té skýringar á því á hvern hátt komist hefði verið að þessari niðurstöðu og hvaða aðferðafræði hefði verið beitt í því skyni. Þá var þess óskað að skýrt yrði á nákvæmari hátt að hvaða leyti framkvæmdastjórnin teldi innleiðingu tilskipunarinnar ófullnægjandi hér á landi og gerð grein fyrir, helst með vísan til ákveðinna tilvika, að hvaða marki tilskipunin væri innleidd á annan hátt í aðildarríkjum Evrópusambandsins og hvernig það stæðist samanburð við innleiðinguna hér á landi.

Í svari Barniers kom fram að niðurstaða hans byggðist ekki á eigin athugun framkvæmdastjórnarinnar heldur væri hún algerlega reist á áliti ESA á málinu. Samkvæmt því kæmi ábyrgð ríkisins á innstæðutryggingum ekki til ef tryggingakerfi sem komið væri á fót samkvæmt tilskipuninni gæti staðið innstæðueigendum skil á tryggingunni. Með vísan til þess virtist sem sú hefði ekki verið raunin á Íslandi m.t.t. innstæðueigenda í Bretlandi og Hollandi.

Framkvæmdastjórnin tók fram að sér væri ekki kunnugt um að sams konar tilvik hefðu komið upp annars staðar í Evrópu, en lét að öðru leyti ósvarað beiðni fjármálaráðherra um að skýra með dæmum á hvern hátt innleiðing tilskipunarinnar hafi verið með öðrum hætti þar.

Hjálögð eru aftir þeirra bréfa sem vitnað er til að framan, dagsett 11. og 17. þ.m.

Reykjavík 27. ágúst 2010


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta