Beinagrind steypireyðar verður varðveitt
Ákveðið hefur verið að varðveita beinagrind steypireyðarinnar sem rak á land á Skaga nýverið. Tillaga umhverfisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra þess efnis var samþykkt á fundi ríkisstjórnarinnar í gær og verður tveimur milljónum króna varið til að ná beinagrind hvalsins og verka hana til geymslu hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Í kjölfarið verður skoðað hvar best sé að geyma beinagrindina til lengri tíma og munu umhverfisráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneytið fjalla um málið að höfðu samráði við Náttúrufræðistofnun Íslands og Náttúruminjasafn Íslands.
Slíkur hvalreki sem hér um ræðir er sjaldgæfur viðburður. Steypireyður er stærsta dýrið sem lifað hefur á jörðinni svo vitað sé. Steypireyður hefur verið alfriðuð frá 1966 og er enn í mikilli útrýmingarhættu, enda er heimsstofninn talinn vera aðeins um 10.000 dýr. Talið er að stofn steypireyðar hér við land sé innan við þúsund dýr. Heila steypireyði hefur afar sjaldan rekið á land hér en aðeins er vitað um tvö óstaðfest tilvik frá 1980. Dýrin eru oftast mjög illa farin og erfitt að komast að þeim. Engin beinagrind eru til af steypireyði í landinu og örfáar til í heiminum og því er verðmæti og sýninga- og fræðslugildi slíkrar beinagrindar mjög mikið.