Kynning á sjónarmiðum Íslands varðandi makrílveiðar.
Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra efndi í dag til kynningarfundar í Þjóðmenningarhúsinu um makrílveiðar með fulltrúum Færeyja, Noregs, framkvæmdastjórnar ESB og aðildarríkjum sambandsins hér á landi. Fundurinn var haldinn í því skyni að bregðast við villandi umræðu um makrílveiðar Íslendinga að undanförnu á erlendum vettvangi.
Gerði ráðherra, ásamt Sigurgeiri Þorgeirssyni, ráðuneytisstjóra sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, og Tómasi H. Heiðar, þjóðréttarfræðingi utanríkisráðuneytisins, grein fyrir sjónarmiðum Íslands og svöruðu þeir síðan spurningum fundargesta. Bentu þeir á að makríll gengi inn í íslensku efnahagslögsöguna í mjög miklu magni, Ísland væri strandríki að því er makríl varðar og hefði fullan rétt til að veiða hann. Strandríkin fjögur, Ísland, ESB, Færeyjar og Noregur, hefðu hins vegar þá sameiginlegu ábyrgð að ná samkomulagi um heildarstjórn makrílveiðanna til að tryggja sjálfbærni þeirra. Tekið var skýrt fram að Ísland legði áherslu á að samkomulag tækist en forsenda þess væri augljóslega sú að allir aðilar væru reiðubúnir til að sýna sveigjanleika og draga úr sínum veiðum.
Fyrirhugað er að strandríkin fjögur eigi viðræður um málið um miðjan október 2010.