Hoppa yfir valmynd
2. september 2010 Forsætisráðuneytið

Munnleg skýrsla forsætisráðherra um störf og stefnu ríkisstjórnarinnar

Jóhanna Sigurðardóttir flutti Alþingi munnlega skýrslu í dag um störf og stefnu ríkisstjórnarinnar. Í máli hennar kom meðal annars fram að helstu hagvísar benda til þess að algjör viðsnúningur hafi orðið í íslensku efnahagslífi.

„Hagvöxtur hefur mælst undanfarna 6 mánuði, meira en hálfu ári fyrr en reiknað hafði verið með. Atvinnuleysi er komið í 7,5% og er mun lægra en áætlanir gerðu ráð fyrir. Störfum er aftur farið að fjölga. Verðbólga hefur lækkað úr 18,6% í 4,5% á einu og hálfu ári og ekki verið minni í 3 ár. Stýrivextir hafa lækkað úr 18% í 7% á rúmu ári og ekki verið lægri í 6 ár. Gengið styrkist jafnt og þétt og hefur ekki verið styrkara í eitt og hálft ár. Forsvarsmenn SA, ASÍ, Seðlabankans, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og fleiri hafa lýst því yfir að kreppunni sé lokið og bjartsýni í samfélaginu eykst.“ 

Forsætisráðherra segir enda fulla ástæðu til bjartsýni. „Með þolinmæði og þrauseigju höfum við hægt og bítandi náð að vinna okkur út úr afleitri stöðu. Við Íslendingar höfum á rúmu ári með samtakamætti náð ótrúlegum árangri sem við getum verið afar stolt af. Við höfum öll fært fórnir og búið við þrengri efnahag en áður, við höfum öll þurft að takast á við vonbrigði. Þorri Íslendinga hefur þurft að lifa við verulega skert lífskjör og mikla erfiðleika.

Við höfum náð ótrúlegum árangri sem alþjóðasamfélagið tekur eftir og virðir. Við erum á réttri leið og okkur ber beinlínis skylda til að halda ótrauð þeirri stefnu sem hefur skilað okkur svo vel fram á við.

Um leið og ég þakka þjóðinni fyrir þá þolinmæði og þrautseigju sem hún hefur sýnt í hremmingum undangenginna missera heiti ég á þingheim, ráðherra og starfsmenn stjórnarráðsins og þjóðina alla að ganga nú einbeitt til þeirra mikilvægu verka sem framundan eru.

Sá vetur sem framundan er verður svo sannarlega ekki auðveldur en lánist okkur að vinna vel úr þeim verkefnum sem þar bíða okkar verður uppskeran ríkuleg. Við munum uppskera bættan efnahag heimilanna, faglegri og skilvirkari stjórnsýslu og nýja stjórnarskrá, réttlátari meðferð á auðlindum þjóðarinnar, jafnari skiptingu lífsgæða, aukin mannréttindi og síðast en ekki síst, betra samfélag sem gerir okkur að sterkari og öflugri þjóð en nokkru sinni.“ 


Ræða ráðherra

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta