Nr. 52/2010 - Skýrsla Ríkisendurskoðunar til Alþingis vegna framkvæmdar búvörusamninga, frá september 2010
Í tilefni af þessari skýrslu vill ráðuneytið þakka Ríkisendurskoðun fyrir yfirgripsmikla athugun og afstemmingar á fjárhæðum búvörusamninga og framkvæmd þeirra. Af þessu tilefni vill ráðuneytið láta eftirfarandi koma fram:
- Í júní 2008 óskaði ráðuneytið sjálft eftir því við Ríkisendurskoðun að stofnunin athugaði framkvæmd samnings milli stjórnvalda og Bændasamtaka Íslands um framleiðslu sauðfjárafurða fyrir tímabilið 2001-2007.
- Síðar óskaði ráðuneytið einnig eftir því við stofnunina að hún athugaði jafnframt samning um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu, sem gildir á tímabilinu 2005-2014 og aðlögunarsamning um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða, sem gildir á tímabilinu 2002-2013.
- Bent er á að athugun þessi nær yfir níu ára tímabil og er heildarupphæð þeirra fjármuna sem um ræðir tæpir 44 ma.kr. Nokkur dæmi eru um að bókað væri á rangt viðfang eða rangt tímabil og er það miður. Athugun Ríkisendurskoðunar leiddi einnig í ljós að ráðuneytið hefur bætt verklag vegna búvörusamninga og í samtölum við starfsmenn ráðuneytisins kom fram að afstemming og uppgjör á sér nú stað ár hvert og er það jákvæð breyting að mati stofnunarinnar.
- Þá bendir Ríkisendurskoðun á að gera þurfi fomlega samninga um þóknanir til Bændasamtaka Íslands fyrir umsýslu með beingreiðslum, en fyrir árið 2009 var þessi upphæð 10,7 m.kr. Ráðuneytið mun taka tillit til þessarar ábendingar.