Ágreiningur við ESA um ríkisaðstoð
Í dag tilkynnti Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) ákvörðun sína um að hefja formlega rannsókn á því hvort kaup nýju bankanna þriggja á eignum peningamarkaðssjóða við slit þeirra sjóða í október 2008 hafi falið í sér ríkisaðstoð í skilningi 61. gr. EES-samningsins.
Í ákvörðun ESA um að setja athugun á málinu í formlega rannsókn felst sú afstaða stofnunarinnar að hugsanlega hafi falist ríkisaðstoð til handa rekstrarfélögum peningamarkaðssjóðanna, í ákvörðunum nýju bankanna.
Kvörtun vegna málsins barst ESA í apríl 2009 og fjármálaráðuneytið hefur síðan þá upplýst stofnunina um hvernig kaup nýju bankanna á eignum úr peningamarkaðssjóðum bar að, hvernig eignir voru verðmetnar, o.fl. Þessara upplýsinga hefur verið aflað frá bönkunum og rekstrarfélögum peningamarkaðssjóðanna.
Fjármálaráðuneytið hefur í samskiptum við ESA komið því skýrt á framfæri að engin fyrirmæli um kaup á eignunum úr sjóðunum voru gefin út af stjórnvöldum. Að mati ráðuneytisins rennir greinargerð rannsóknarnefndar Alþingis um uppgjör peningamarkaðssjóðanna stoðum undir þessa afstöðu, en þar kemur fram að slit peningamarkaðssjóðanna lúti fyrst og fremst að einkaréttarlegu uppgjöri á sjóðunum eftir fall bankanna gagnvart eigendum hlutdeildarskírteina og ráðstöfun fjármuna af hálfu þeirra sem fóru með stjórn rekstrarfélaganna og bankanna á þeim tíma sem þær ákvarðanir voru teknar. Líkt og fram kemur í skýrslunni byggðu ákvarðanir um kaupverð á mati óháðra aðila á verðmætum eigna sjóðanna. Þetta verðmat fór fram á tíma þegar mikið rót var á mörkuðum og eftir að kaupin fóru fram lækkaði verðmæti margra þeirra eigna sem keyptar voru.
Íslensk stjórnvöld hafa komið á framfæri við ESA rökstuddum andmælum við þeim fullyrðingum sem fram koma í kvörtun til ESA, að stjórnvöld hafi komið að ákvarðanatöku eða fjármögnun kaupa bankanna. Samkvæmt upplýsingum sem borist hafa frá hverjum banka voru ákvarðanir um kaup á eignum úr sjóðunum teknar á viðskiptalegum forsendum. Sjóðsfélagar voru að miklum meirihluta viðskiptavinir bankanna og bankarnir töldu brýnt við þær aðstæður sem ríktu í október 2008 að eyða óvissu sem upp var um endurheimtur úr peningamarkaðssjóðum.
Ætla má að niðurstaða hinnar formlegu rannsóknar ESA liggi fyrir á næsta ári. Endanleg ákvörðun ESA um hvort ríkisaðstoð hafi falist í umræddum ákvörðunum og hvort slík ríkisaðstoð teljist ólögmæt, yrði síðan kæranleg til EFTA-dómstólsins.