Breytingar á stjórnarráði Íslands samþykktar á Alþingi
Frumvarp forsætisráðherra um breytingar á stjórnarráði Íslands var samþykkt sem lög frá Alþingi í gær. Lögin taka gildi um áramót en undirbúningur breytinganna er þegar hafinn. Í samræmi við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar verður ráðuneytum fækkað með sameiningu dómsmála- og mannréttindaráðuneytis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis í nýtt innanríkisráðuneyti og félags- og tryggingamálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis í nýtt velferðarráðuneyti. Markmiðið með breytingunum er að endurskipuleggja ráðuneyti í því skyni að bæta þjónustu hins opinbera við almenning og atvinnulíf eins og unnt er með þeim fjármunum sem til ráðstöfunar eru hverju sinni. Með sameiningum gefst kostur á að efla teymisvinnu sérfræðinga þvert á svið og gera ráðuneytin betur í stakk búin til að takast á við flókin stjórnsýsluverkefni.