Hoppa yfir valmynd
10. september 2010 Utanríkisráðuneytið

Ísland í kastljósinu á heimssýningunni í Shanghai

Expo-2010-sept
Expo-2010-sept

Þjóðardagur Íslands verður haldinn hátíðlegur á morgun, laugardaginn 11. september, á heimssýningunni EXPO 2010 í Shanghai. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, mun opna fjórar íslenskar sýningar en auk þeirra verður boðið upp á tónlist og dagskrá fyrir börn. Um 1,4 milljónir manna hafa heimsótt íslenska skálann á sýningunni sem hófst í byrjun maí og lýkur 31. október næstkomandi.

Þjóðardagurinn hefst með leik Tinnu Þorsteinsdóttur píanóleikara sem flytur sígild íslensk verk. Þá munu Ólafur Arnalds og hljómsveit spila, Latibær heldur sýningar fyrir kínversk grunnskólabörn og íslensk matvæli verða kynnt. 

Að kvöldi sama dags opnar forseti Íslands fjórar íslenskar sýningar í norræna húsinu í Shanghai, Nordic Lighthouse.  Sýningarnar eru hönnunarsýning á vegum Hönnunarmiðstöðvar, sýning á ljósmyndum Ragnars Axelssonar, RAX, af jökulís, mynd- og hljóðverk Guðrúnar Kristjánsdóttur og sýning á verkum Steinunnar Sigurðardóttur fatahönnuðar.

Um 70 fulltrúar íslenskra fyrirtækja og stofnana taka þátt í þjóðardeginum en þátttaka þeirra er skipulögð af Íslandsstofu í samstarfi við aðalræðisskrifstofuna í Shanghai og íslensk fyrirtæki með starfsemi í Kína. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta