Forsætisráðherra fagnar skýrslu þingmannanefndar
Í ræðu sinni á Alþingi í morgun lýsti Jóhanna Sigurðardóttir ánægju með að skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sé komin fram. „Það er gríðarlega merkilegur áfangi og stórpólitísk tíðindi, þegar níu manna nefnd þingmanna úr öllum stjórnmálaflokkum hefur ítarlega yfirfarið efni rannsóknarskýrslunnar lið fyrir lið, rætt sig niður á sameiginlegar leiðir til að bregðast við þeim áfellisdómum og ábendingum sem þar komu fram og skila nánast einróma niðurstöðum. Það hlýtur að efla okkur trú um að nýir tímar séu að renna upp í endurreisnarferlinu og að aukin sátt muni ríkja um þau mikilvægu verk sem framundan eru.“
Ráðherra ræddi einnig um helstu orsakir efnahagshrunsins á Íslandi:
„Hinar raunverulegu ástæður hrunsins, sem ítarlega var fjallað um í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og nú eru staðfestar með þverpólitískri sátt í þingmannanefndinni áttu sér stað fyrir árið 2007. Meginástæðan fyrir hruninu verður auðvitað fyrst og fremst rakin til framferðis og stjórnarhátta stjórnenda og aðaleigenda bankanna sjálfra. Um þau mál fáum við stöðugt ný sannindamerki og við hljótum að treysta því að umfangsmiklar rannsóknir sérstaks saksóknara leiði síðan allan sannleikann í ljós áður en langt um líður.
Rótina að þessum óförum má hinsvegar rekja til einkavæðingar bankanna fram til ársins 2003 og þess óhefta vaxtar sem stjórnvöld og eftirlitsstofnanir létu viðgangast, og í raun hvöttu til, framundir það síðasta. Fjármálaeftirlitið og ekki síst Seðlabanki Íslands fá algjöra falleinkunn í þessu samhengi.
Ekki síst verður orksaka hrunsins leitað í þeim alvarlegu mistökum sem hér voru gerð í efnahagsstjórn á árunum fyrir hrun. Sérstaklega á þetta við um tímabilið frá 2003 til 2007 þegar vöxtur bankakerfisins var sem mestur.
Þarna liggja hinar raunverulegu ástæður hrunins og ég fagna því sérstaklega að um það ríki nú pólitísk sátt.“
Þá fór Jóhanna yfir að ýmsar ábendingar sem komið hafa fram um hvað megi betur fara í starfi forsætisráðuneytis, ríkisstjórnar, stjórnarráðs og stjórnsýslunnar. Hún gat þess að ýmiskonar vinna við úrbætur væri þegar hafin eða komin langt á leið.