Sanngirni tryggð með lagasetningu
Hæstiréttur hefur í dag dæmt í máli nr. 471/2010 að reikna beri vexti ólögmæts gengisbundins láns vegna bílakaupa í samræmi við vexti sem Seðlabanki Íslands auglýsir. Ríkisstjórnin er einbeitt í því að tryggja sanngirni, greiða úr málum og bæta stöðu skuldara. Í ljósi niðurstöðunnar boðar efnahags- og viðskiptaráðherra lagasetningu með það markmið að tryggja sanngirni gagnvart lántakendum og skattborgurum. Stjórnvöld hafa unnið að undirbúningi málsins og fengið til þess innlenda og erlenda ráðgjafa, auk þess sem byggt hefur verið á upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu og Seðlabanka Íslands.
Í þágu sanngirni mun löggjöfin tryggja að þessi niðurstaða Hæstaréttar nái til allra lána vegna bíla- og húsnæðiskaupa sem tengd eru gengi erlendra gjaldmiðla. Mun lagasetningin taka til þeirra flokka lána sem talið er að hafi byggt á ólögmætri gengisbindingu. Samkvæmt útreikningum sérfræðinga Seðlabanka Íslands munu eftirstöðvar þessara lána lækka verulega við breytinguna, t.d. um 25% til 47% fyrir 25 ára lán.
Gengisbundin húsnæðislán verða færð yfir í íslenskar krónur og verðtryggð kjör sem lækkar eftirstöðvar lánanna. Lántakendum mun jafnframt bjóðast að breyta láninu í löglegt erlent lán eða færa það í óverðtryggða íslenska vexti. Þessi hagsbót er möguleg án þess að fjárhagslegt högg fyrir lánastofnanir verði slíkt að það stefni stöðugleika fjármálakerfisins í hættu.
Út frá sanngirnissjónarmiðum er talin þörf á að skýra lögmæti gengisbundinna lána til fyrirtækja. Heildarvirði þeirra lána hefur verið áætlað um 841 milljarður króna, en lán til einstaklinga um 186 milljarðar króna. Stór hluti fyrirtækjalána eru til aðila með tekjur í erlendri mynt. Rík neytendasjónarmið hníga að því að einstaklingar fái meiri vernd en fyrirtæki. Jafnframt eru miklir almannahagsmunir fyrir því að kostnaður falli ekki á skattborgara vegna lána fyrirtækja. Samhliða verða gerðar ríkari kröfur til bankanna um hraðari endurskipulagningu skulda fyrirtækja.
Jafnframt verður stuðlað að skýrari uppgjörum og auðveldari úrlausnum álitamála.