Hoppa yfir valmynd
20. september 2010 Innviðaráðuneytið

Tímarammi til sameininga of knappur

Ögmundur Jónasson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, lauk fyrir helgina heimsóknum sínum á samgöngustofnanirnar. Fram kom í máli hans á fundi í Siglingastofnun að hann væri að kynna sér áætlun um endurskipulagningu samgöngustofnana en ljóst væri að áform um sameiningu um næstu áramót myndu ekki ná fram að ganga.

Ögmundur Jónasson heimsækir samgöngustofnanir.
Ögmundur Jónasson heimsækir samgöngustofnanir.

Eins og fram hefur komið hefur ráðherra verið að kynna sér stofnanir ráðuneytisins og á föstudag lauk hann hringferð á samgöngustofnanir þegar hann heimsótti Vegagerðina í aðalstöðvunum í Borgartúni í Reykjavík og Siglingastofnun í Vesturvör í Kópavogi.

Ráðherra svaraði spurningum starfsmanna og meðal annars um áform um endurskipulagningu samgöngustofnana. Snýst hún um að gera fjórar stofnanir að tveimur, annars vegar stjórnsýslustofnun og hins vegar framkvæmdastofnun, sem taki við viðeigandi verkefnum sem nú eru vistuð hjá Flugmálastjórn, Siglingastofnun, Umferðarstofu og Vegagerðinni.

Ráðherra sagðist enn vera að kynna sér málið. Ljóst væri að tímaramminn sem gerði ráð fyrir sameiningu væri of knappur og því yrði að endurskoða hann. Eftir frekari yfirferð á málinu í ráðuneytinu í dag sagði hann ljóst að það væri vel unnið af hálfu ráðuneytisins og undirbúningshópa og að það hefði verið kynnt Alþingi. Ráðherra segir mikilvægt að halda áfram vönduðum undirbúningi og yrði metið á næstunni hvenær af sameiningunni gæti orðið.

Ögmundur Jónasson ræðir við starfsmenn Siglingastofnunar.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta