Utanríkisráðherra hittir forseta og utanríkisráðherra Slóvakíu
Reynsla Slóvaka af aðildarviðræðum og aðild að Evrópusambandinu , svo áhrif efnahagskreppunnar á hagkerfi Evrópu, voru meginefni hádegisverðarfundar sem Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra bauð forseta Slóvakíu, Ivan Gašparovic, og utanríkisráðherra landsins, Mikuláš Dzurinda, til. Utanríkisráðherra SlóvaKíu sagði grunninn að góðri stöðu landsins í dag hafa verið lagðan áður en ríkið gekk í ESB. Slóvakar hefðu á sínum tíma viljað taka upp evru eins fljótt og völ var á til þess að auka stöðugleika í efnahagslífinu. Evran væri engin töfralausn heldur mikilvægur hlekkur í því að skapa stöðugleika. Bauð ráðherrann fram ráðgjöf og stuðning í aðildarviðræðunum sem nú fara í hönd.
Össur Skarphéðinsson gerði málefni Roma-fólks, einkum menntun barna, að umtalsefni. Sagði Gašparovic forseti mikilvægt að lausnin yrði að vera samevrópsk en ekki bundin við einstök ríki.
Opinberri heimsókn forseta og utanríkisráðherra Slóvakíu til Íslands lauk síðdegis í dag en í heimsókni sinni hittu þeir forseta Íslands, forsætisráðherra, forseta Alþingis og borgarstjórann í Reykjavik.