Hoppa yfir valmynd
22. september 2010 Utanríkisráðuneytið

Samstarf við Kanada um norðurslóðir

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra ræddi í gær við Lawrence Cannon utanríkisráðherra Kanada um norðurslóðamál og tvíhliða samskipti ríkjanna. Fundurinn fór fram í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York.

Ráðherra lagði áherslu á gott samstarf Íslands og Kanada eins og allra ríkja á Norðurslóðum og meginhlutverk Norðurskautsráðsins sem vettvangs aðildarríkjanna átta.

Ráðherrarnir voru sammála um nauðsyn þess að ríkin öll vinni náið saman til að takast á við breyttar aðstæður á norðurslóðum þar sem eru mestu ónýttu náttúruauðlindir heims og fyrirsjáanleg mikil aukning skipaumferðar á næstu áratugum vegna loftslagsbreytinga. Mikilvægt væri að ljúka samningum um leit og björgun sem fyrst en næsta samningalota um sáttmála Norðurskautsráðsins um þau mál verður í Reykjavík í haust.

Utanríkisráðherra kom skýrt á framfæri þeirri afstöðu Íslands að einstök ríki ættu ekki að útiloka önnur aðildarríki frá fundum um mikilvæg hagsmunamál á norðurslóðum eins og Kanada hafi gert og Danir þar á undan með því að kalla til fundar ríkin fimm sem eiga landamæri að Norðurpólnum. Með slíkum fundum væri ekki einungis verið að grafa undan samstarfi ríkjanna í Norðurskautsráðinu, heldur einnig lokað fyrir aðkomu frumbyggja sem ættu rétt á því að rödd þeirra heyrðist.

Kanadíski utanríkisráðherrann sagðist þekkja afstöðu Íslands og að ekki væru neinir frekari fundir fyrirhugaðir hjá ríkjunum fimm án Íslands, Svíþjóðar og Finnlands.

Þá ræddu ráðherrarnir samstarf Íslands og Kanada í loftferðamálum, sem væri sameiginlegt hagsmunamál íbúa beggja landa. Það væri bæði brýnt hagsmunamál Íslendinga og íbúa svæða í Kanada sem hefðu notið góðra flugsamgangna við Ísland  og Evrópu að efla þær og tryggja. Sammæltust ráðherrarnir um að fulltrúar landanna ræddu frekar loftferðamál á fundi í byrjun næsta mánaðar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta