Hoppa yfir valmynd
23. september 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Aðgerðir gegn ofbeldi í nánum samböndum

Frá kynningarfundi á rannsóknum um ofbeldi gegn konumLagðar eru fram tillögur um aðgerðir til að bæta skráningu upplýsinga um ofbeldi karla gegn konum í nánum samböndum, auka þekkingu fagfólks á vandanum og tryggja úrræði við hæfi í tveimur nýjum rannsóknum sem Rannsóknastofnun í barna- og fjölskylduvernd við Háskóla Íslands hefur unnið fyrir félags- og tryggingamálaráðuneytið. Rannsóknirnar eru hluti af áætlun stjórnvalda um aðgerðir til að vinna gegn ofbeldi á heimilum og kynferðislegu ofbeldi sem beinist að konum og börnum. 

Önnur rannsóknin beindist að heilbrigðisþjónustunni þar sem aflað var upplýsinga um skráningu mála, viðbrögð viðkomandi stofnunar og úrræði, þekkingu starfsfólks á vandanum og upplýsingum um fjölda mála. Alls voru viðmælendur í rannsókninni 19 einstaklingar á níu stofnunum. Hin rannsóknin fjallar um þjónustu félagasamtaka sem aðstoða konur sem beittar hafa verið ofbeldi í nánum samböndum og var meginmarkmiðið að afla þekkingar á því hvort og hvernig konur leiti til ákveðinna félagasamtaka eftir aðstoð og hvaða þjónustu þær fá. Rætt var við fulltrúa 11 félagasamtaka.

Rannsóknirnar gerðu Ingólfur V Gíslason og Guðrún Helga SederholmViðbrögð heilbrigðisþjónustu

Meginniðurstöður rannsóknarinnar um viðbrögð heilbrigðisþjónustu eru þær að skráningar í heilbrigðiskerfinu geti ekki verið grundvöllur að mati á tíðni heimilisofbeldis eða hvort tilfellum fari fjölgandi eða fækkandi. Bent er á að ekki séu neinar fastmótaðar leiðir um hvernig tekið skuli á þeim tilvikum þegar kona skýrir frá ofbeldi. Starfsfólk óskar eftir meiri fræðslu um þessi mál og telur að hún eigi að vera þáttur í grunnnámi heilbrigðisstarfsfólks, auk endurmenntunar. Í niðurstöðum eru kynntar tillögur til úrbóta. Meðal annars er lagt til að gerð verði tilraun á nokkrum heilsugæslustöðvum um skimun fyrir ofbeldi og síðan metið hvort æskilegt sé að gera skimun að almennu verklagi. Einnig verði skoðað hvort mæðraskrár eigi að innihalda spurningar um reynslu af ofbeldi þannig að allar þungaðar konur verði spurðar.

Viðbrögð félagasamtaka

Í rannsókn á viðbrögðum félagasamtaka kemur fram að þjónusta við konur sem beittar eru ofbeldi sé mest á höfuðborgarsvæðinu og er bent á að um helmingur kvenna sem dvelur í Kvennaathvarfinu fari heim í óbreyttar aðstæður. Að mati þeirra sem rætt var við er túlkaþjónustu verulega ábótavant. Þá telja viðmælendur að fatlaðir, aldraðir og erlendar konur séu afskipt hvað þjónustu varðar og benda á að sérstaða erlendra kvenna sé mikil. Fram kemur það mat að þegar fagfólk sé upplýst og vakandi fyrir einkennum ofbeldis verði ofbeldið sýnilegra og bent er á að vönduð læknisvottorð skili gleggri sýn á ofbeldið. Hjá félagasamtökunum er yfirleitt spurt sérstaklega um stöðu barna á heimilum þar sem ofbeldi er beitt og viðmælendur segja að tilkynningarskylda til barnaverndaryfirvalda sé alltaf virt.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á hjalp@utn.is

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta