Viðbrögð við áföllum í umsýslu virðisaukaskatts
Fjármálaráðuneytið, Ríkisskattstjóri, fréttatilkynning nr. 22/2010
Vegna gruns sem fram kom fyrir fáeinum dögum um misferli og fjársvik er varðar tiltekna þætti í umsýslu virðisaukaskatts, hefur fjármálaráðuneytið og embætti ríkisskattstjóra unnið að úrbótum við að lágmarka áhættu ríkissjóðs vegna slíkra áfalla í framtíðinni.
Í ljósi þeirra atburða sem hér er vísað til verður hrundið af stað víðtækri endurskoðun á stjórnun,verklagi,ferlum og meðferð gagna er tengjast virðisaukaskattsinnheimtu. Ráðist verður strax í þá endurskoðun og hún unnin eins hratt og kostur er.
Áhættumat og áhættustjórnun verður hert, endurbætur verða gerðar á innri og ytri ferlum, svo sem aðkomu starfsfólks, afgreiðsluhraða og krafna til stofnenda og stjórnenda fyrirtækja. Lagt verður sérstakt mat á verklag m.a. með hliðsjón af fjárhæðum til endurgreiðslu. Endurskoðaðir verða starfshættir við samanburð gagna, skráningu upplýsinga og innra eftirlit og loks er lagt mat á hvort ástæða sé til að breyta lögum eða reglugerðum, og þá í hverju slíkar breytingar ættu að felast
Á grundvelli framangreinds verður lagt mat á fjölda starfsfólks sem sinnir þessum málaflokki og hvernig unnt verður að auka þekkingu þess við framkvæmd virðisaukaskatts.
Reykjavík 23. september 2010