Hoppa yfir valmynd
24. september 2010 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Starfshópur um breytingar og umbætur á skattkerfinu skilar áfangaskýrslu

Fjármálaráðuneytið, fréttatilkynning nr. 23/2010

Þann 23. apríl 2010 skipaði fjármálaráðherra starfshóp til að móta og setja fram heildstæðar tillögur um breytingar og umbætur á skattkerfinu í framhaldi af breytingum sem gerðar voru á skattalöggjöfinni á árinu 2009. Tilefni endurskoðunarinnar á skattkerfinu er annars vegar nauðsyn á styrkri fjáröflun hins opinbera til að ná markmiðum um jöfnuð í ríkisfjármálum á næstu árum og hins vegar að móta skattkerfið að markmiðum stjórnvalda í samfélagslegum mál­efnum, umhverfismálum og efnahagsmálum almennt. Viðmið starfshópsins við mótun hugmynda að skattabreytingum er að áform ríkisstjórnarinnar um 11 milljarða króna tekjuöflun á árinu 2011 náist, þó þannig að þær breytingar falli jafnframt að meginsjónarmiðum hans um breytingar á skattkerfinu þegar til lengri tíma er litið.

Eitt af meginmarkmiðum endur­skoð­unar á skattkerfinu er að gætt verði aukins jafnræðis við álagn­ingu skatta.

Starfshópurinn hefur nú skilað áfangaskýrslu til fjármálaráðherra en hópnum er gert að skila lokaskýrslu og heildartillögum fyrir 1. febrúar 2011. Skýrslan er viðamikil og í henni eru raktar þær tekjuöflunaraðgerðir sem nú þegar hefur reynst nauðsynlegt að ráðast í eftir hrun íslensks fjármálakerfis. Fjallað er um úttekt AGS á íslenska skattkerfinu og gerð grein fyrir samanburði við önnur lönd OECD. Jafnframt er yfirlit um hver staða helstu tekjustofna er árið 2010 og samanburður gerður við fyrri ár. Loks setur starfshópurinn fram hugmyndir til frekari tekjuöflunar fyrir árið 2011.

Áfangaskýrsla starfshópsins er nú aðgengileg á vef fjármálaráðuneytisins og hefur verið dreift til samráðshóps sem vann með starfshópi fjármálaráðherra.

Nánari upplýsingar veitir Rósa Björk Brynjólfsdóttir, upplýsingafulltrúi fjármálaráðuneytisins.

Reykjavík 24. september 2010

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta