Orkumálaráðherra Indlands heimsækir Ísland í boði iðnaðarráðherra
Dr. Farooq Abdullah, ráðherra endurnýjanlegrar orku á Indlandi, mun dvelja hér á landi í þrjá daga í boði Katrínar Júlíusdóttur iðnaðarráðherra.
Mánudaginn 27. september munu ráðherrarnir eiga fund um aukið samstarf landanna á sviði endurnýjanlegrar orku. Auk þess mun Dr. Farooq Abdullah og sendinefnd hans sitja vinnufund um tækifæri til aukins samstarfs þjóðanna í orkumálum með iðnaðarráðherra, Guðna Jóhannessyni orkumálastjóra og fulltrúum íslenskra orkufyrirtækja og verkfræðistofa á sviði jarðhitarannsókna og –vinnslu.
Meðan á heimsókninni stendur mun Dr. Farooq Abdullah og fylgdarliði gefast kostur á að skoða Hellisheiðarvirkjun og kynna sér tilraunaverkefni með bindingu koltvísýrings í basalti. Þá verður Garðyrkjuskóli ríkisins, Heilsuhæli Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði og Bláa Lónið heimsótt.
Meðal þeirra sem verða í för með Dr. Farooq Abdullah eru Gauri Singh, ráðuneytisstjóri í ráðuneyti endurnýjanlegrar orku, Sivaraman Swaminathan, sendiherra Indlands á Íslandi og Guðmundur Eiríksson sendiherra Íslands á Indlandi.
Opinberri heimsókn ráðherrans lýkur þriðjudaginn 28. september.