Þriðja endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands samþykkt í stjórn AGS
Stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) samþykkti þriðju endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands og sjóðsins á fundi sínum í Washington í dag, 29. september. Þar með stendur íslenskum stjórnvöldum til boða lánafyrirgreiðsla sjóðsins að fjárhæð um 19 milljarðar króna. Auk þess er gert ráð fyrir lánafyrirgreiðslu frá Póllandi og Norðurlandaþjóðum í tengslum við endurskoðunina.
Við endurskoðunina sendu íslensk stjórnvöld sjóðnum nýja viljayfirlýsingu (e. Letter of Intent) sem lýsir efnahagsstefnu Íslands. Í henni kemur fram að stefnan leggi grunninn að endurreisn hagkerfisins og að umtalsverður árangur hafi náðst frá hruni. Aukið jafnvægi í ríkisfjármálum hefur sýnt sig í vaxandi trausti, sterkara gengi krónunnar og meiri stöðugleika hagkerfisins frá lokum ársins 2009. Atvinnuleysi hefur að líkindum náð hámarki, verðbólga fer ört lækkandi og hagvöxtur verður aftur jákvæður á seinni hluta árs 2010, samkvæmt spám. Þrátt fyrir nokkuð háa skuldastöðu hins opinbera, er hún metin viðráðanleg. Spáð er lækkun á halla ríkissjóðs úr 14% af vergri landsframleiðslu um mitt ár 2009 í 9% árið 2010. Skuldatryggingarálag ríkisins hefur jafnframt lækkað niður í um 300 punkta.
Efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar byggir á fjórum meginþáttum. Í fyrsta lagi er unnið að því að byggja upp traust fjármálakerfi sem getur sinnt þörfum heimila og fyrirtækja. Í öðru lagi þarf að tryggja fjárhagslega stöðu ríkissjóðs og hins opinbera og leika þar fjárlög haustsins lykilhlutverk. Í þriðja lagi verður að taka frekari skref til afnáms gjaldeyrishafta og móta peningastefnu til frambúðar. Í fjórða lagi þarf að tryggja aðlögun skulda heimila og fyrirtækja, með virkri þátttöku lánastofnana. Nýfallinn dómur Hæstaréttar og fyrirhuguð lagasetning vegna gengisbundinna lána munu tryggja sanngjarna niðurstöðu í málinu og flýta fyrir endurskipulagningu skulda. Markmið efnahagsstefnunnar er að leggja grunninn að sjálfbærum hagvexti og atvinnutækifærum til framtíðar.
„Samþykktin í dag er mjög mikilvæg traustsyfirlýsing við íslenskt efnahagslíf og viðurkenning á því að okkur hafi tekist að ná þeim árangri sem að hefur verið stefnt,“ segir Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra. „Það er fagnaðarefni að samþykktin hafi gengið hratt fram og við hlökkum til að takast á við þau brýnu verkefni sem næst eru á dagskrá og hafa verið skilgreind í hnökralausu samstarfi við sérfræðinga sjóðsins. Markmið okkar er enn sem fyrr að í lok samstarfstímabilsins hafi verið unnið úr afleiðingum bankahrunsins og lagður traustur grunnur fyrir stöðugan og sjálfbæran hagvöxt til lengri tíma.“
Upplýsingar veitir Kristrún Heimisdóttir, aðstoðarmaður efnahags- og viðskiptaráðherra, kristrun.heimisdottir hjá evr.is