Nr. 54/2010 - Hótunum ESB vegna makrílveiða vísað á bug.
Á blaðamannafundi í Brussel 27. september 2010, gagnrýndi Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins, makrílveiðar Íslendinga og Færeyinga harkalega og setti fram órökstuddar fullyrðingar um makrílveiðar þeirra sem ekki fá staðist. Gaf Damanaki í skyn að Íslendingar og Færeyingar bæru einir ábyrgð á því að heildarveiðar á makríl á þessu ári munu fyrirsjáanlega fara langt fram úr því sem sjálfbært getur talist. Loks hótaði hún því að ESB kynni að grípa til aðgerða gagnvart Íslandi og Færeyjum og m.a. taka árlega fiskveiðisamninga sambandsins við löndin tvö til endurskoðunar.
Af þessu tilefni vill sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið koma eftirfarandi á framfæri:
Fyrir liggur að Ísland hefur allt frá árinu 1999 leitað eftir því að taka þátt í samningaviðræðum strandríkja um stjórn makrílveiða. Það var hins vegar ekki fyrr en á þessu ári, þrátt fyrir órækar sannanir í mörg ár, sem hin strandríkin viðurkenndu að Ísland hefði sess strandríkis að því er makríl varðar. Í framhaldi af því fóru fram viðræður strandríkjanna fjögurra, Íslands, ESB, Færeyja og Noregs.
Strandríkjunum tókst ekki að ná samkomulagi um stjórn makrílveiðanna og skiptingu heildarafla sín á milli fyrir árið 2010. Af þeim sökum hafa þau öll ákveðið einhliða aflahlut fyrir þetta ár. Ísland var fyrsta ríkið er tók ákvörðun um aflahlut en hann tók mið af breyttu göngumynstri makrílsins og veiðum fyrri ára en sem kunnugt er hefur makríllinn á undanförnum árum gengið í stórauknum mæli inn í íslenska lögsögu og upp að ströndum hringinn í kringum landið. Þetta staðfesta fjölþjóðlegar rannsóknir um útbreiðslu og stærð makrílstofnsins.
Íslensk stjórnvöld hafna því alfarið að Ísland beri meginábyrgð á því að heildarveiðar strandríkjanna séu meiri en samkvæmt vísindalegri ráðgjöf, enda er ábyrgð ESB, Færeyja og Noregs á því að veiðarnar haldist innan marka þess sem sjálfbært getur talist engu minni en Íslands. Kjarni málsins er sá að strandríkin fjögur bera sameiginlega ábyrgð á því að koma á heildstæðri stjórn makrílveiðanna til að tryggja sjálfbærar veiðar og réttur Íslendinga til veiða í því samhengi er engu minni en hinna.
Viðræður strandríkjanna um stjórn makrílveiðanna frá og með næsta ári fara fram í London 12.-14. október nk.
Ljóst er að hótanir um aðgerðir á borð við uppsögn óskyldra samninga er ekki eðlileg leið í samningum á milli sjálfstæðra ríkja og áðurnefndar hótanir ESB eru ekki til þess fallnar að stuðla að lausn málsins.