Hoppa yfir valmynd
4. október 2010 Dómsmálaráðuneytið

Bætt réttarstaða hælisleitenda og fórnarlamba mansals

Með nýlegri samþykkt Alþingis á breytingum á útlendingalögum hefur  réttarstaða hælisleitenda og fórnarlamba mansals verið bætt m.a. til samræmis við þróun löggjafar í þessum málaflokkum í Evrópu.

Hælismál

Breytingarnar, sem koma fram í lögum nr. 115/2010, byggjast á tillögum nefndar sem fór yfir reglur og framkvæmd um meðferð hælisumsókna og koma fram í  skýrslu til þáverandi dómsmálaráðherra í ágúst 2009. Breytingarnar eru m.a. í takt við helstu tilskipanir sem í gildi eru innan Evrópusambandsins um málefni hælisleitenda. Auk þess er horft til þróunar löggjafar í Noregi, en íslensku útlendingalögin byggja á norskum lögum. Gert ráð fyrir að ýmis ákvæði verði nánar útfærð í reglugerð ráðherra.

Settar hafa verið  skýrari reglur um málsmeðferð hælisumsókna og réttarstöðu hælisleitenda á meðan mál þeirra eru til meðferðar hjá stjórnvöldum. Þá hafa verið lögfest viðmið við veitingu dvalarleyfis á grundvelli mannúðarástæðna.

Önnur helstu nýmæli laganna eru:

  • Ný ákvæði eru sett um aukna vernd (viðbótarvernd) þeirra sem ekki eru flóttamenn samkvæmt skilgreiningu alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 eða Flóttamannasamnings Sþ. Þeir sem eiga á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, verði þeir sendir aftur til heimalands síns, fá nú sömu réttarstöðu og flóttamenn.
  • Ný og skýrari ákvæði  hafa verið sett  um réttarstöðu fylgdarlausra barna undir 18 ára aldri og meðferð máls þeirra.  Hugtakið fylgdarlaust barn er nú skilgreint sérstaklega í 44. gr. laganna.
  • Sett er skýrara heimildarákvæði  um afturköllun á hæli  auk þess sem kveðið er á um að  heimilt sé að afturkalla hælisveitingu ef síðar kemur í ljós að flóttamaður hefur gerst sekur um nánar tiltekin alvarleg brot.
  • Sett er nýtt ákvæði um flýtimeðferð hælisumsókna, m.a. þegar umsókn þykir bersýnilega tilhæfulaus.
  • Réttarstaða flóttafólks sem kemur til landsins samkvæmt ákvörðun stjórnvalda er styrkt með því að mælt er fyrir um útgáfu dvalarleyfis til fjögurra ára í stað þriggja. Þá eru gerðar undanþágur á framfærslukröfum til þessa hóps þegar sótt er um búsetuleyfi (ótímabundið dvalarleyfi).

Fórnarlömb mansals

Tveimur nýjum ákvæðum um dvalarleyfi fyrir fórnarlömb mansals var bætt við útlendingalögin, með lögum nr. 116/2010. Sækja ákvæðin fyrirmynd sína til samnings Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali frá 3. maí 2005 sem fyrirhugað er að fullgilda af Íslands hálfu.

Annars vegar er mælt fyrir um tímabundið dvalarleyfi til sex mánaða sem Útlendingastofnin skal veita einstaklingi sem grunur leikur á að sé fórnarlamb mansals. Hins vegar er mælt fyrir um endurnýjanlegt dvalarleyfi til eins árs þegar talið er að dvöl fórnarlambs mansals hérlendis sé nauðsynleg vegna persónulegra aðstæðna viðkomandi, og/eða vegna samvinnu viðkomandi við yfirvöld í tengslum við rannsókn eða við meðferð sakamáls.

Ýmis ákvæði

Aðrar breytingar snúa m.a. að því að veita dómsmálaráðherra heimild til að setja með reglugerð nánari reglur um þátttöku Íslands í sjóðum, stofnunum og verklegu samstarfi í tengslum við samvinnu á ytri landamærum Schengen-ríkjanna, sjá lög nr. 114/2010.

Gerð var sú breyting að atvinnuleysisbætur og greiðslur úr almannatryggingum teljast nú  vera  trygg framfærsla við mat á því hvort skilyrði séu fyrir veitingu dvalarleyfis eða búsetuleyfis hér á landi. Breytingin hefur jafnframt bein áhrif á skilyrði laga um íslenskan ríkisborgararétt.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta