Össur fundar með utanríkisráðherra Singapúr
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra átti í dag fund með utanríkisráðherra Singapúr, George Yeo, sem kom í opinbera heimsókn til Íslands.
Yeo og Össur ræddu samskipti og viðskipti ríkjanna, en þau hafa gert með sér loftferða- og fríverslunarsamning, þann síðarnefnda með öðrum EFTA-ríkjum. Þá ræddu þeir mögulegt samstarf í orkumálum og málefni Norðurslóða, en Singapúr er leiðandi í sjóflutningum. Utanríkisráðherra upplýsti starfsbróður sinn ennfremur um stöðu mála hérlendis og aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu.