Umræður um stefnuræðu forsætisráðherra
Glíman við skuldavanda heimilanna er brýnasta verkefni ríkisstjórnarinnar, Alþingis og þjóðarinnar á næstu dögum og vikum. Verkefni okkar er að verja barnafjölskyldur og heimilin, tryggja að einstaklingar og fjölskyldur hafi öruggt heimili, tryggja lágmarksafkomu og eyða fátækt, sagði Guðbjartur Hannesson, heilbrigðisráðherra og félags- og tryggingamálaráðherra í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi í gær.
Ráðherra sagði misbrest á því að þeir sem hafa misst húseign geti búið áfram í íbúðinni gegn hóflegri leigu, eins og lög geri ráð fyrir og að það þyrfti að tryggja:
„Gera þarf allt sem hægt er til að hindra að lán sem felld verða niður í greiðsluaðlögun falli ekki á ábyrgðarmenn eða þá sem veitt hafa lánsveð. Þá þarf að styrkja ýmis úrræði varðandi leiguhúsnæði, félagslegar íbúðir, kaupleigu- og búseturétt til að tryggja öllum öruggt heimili. Og það er mikilvægt að leiðrétta þann misskilning að meira verði ekki gert eftir 1. nóvember vegna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, það verður gripið til þeirra ráða sem duga.“
Ráðherra benti á að þverpólitísk sátt hefði náðst um lög um umboðsmann skuldara, frjálsa greiðsluaðlögun og lausnir á vanda þeirra sem sitja uppi með tvær eignir. Nú þyrfti að fylgja þessum lögum eftir, tryggja að þau nái hratt og vel tilgangi sínum og gera á þeim lagfæringar og breytingar ef þörf krefði.
Ráðherra lagði ríka áherslu á ábyrgð þingmanna og nauðsyn þess að þeir sameinuðust allir sem einn í leit að lausnum á vanda heimilanna og skoðuðu allar hugmyndir sem fram hefðu komið. Þetta væri verkefni sem aðeins yrði leyst með samstilltu átaki.