Hoppa yfir valmynd
5. október 2010 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra ávarpar þingmannanefnd Íslands og ESB

Sameiginlega-thingnefnd-Althingis-og-ESB-023

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra ávarpaði í dag sameiginlega þingmannanefnd Íslands og Evrópusambandsins, á fyrsta fundi nefndarinnar sem fram fór í Þjóðmenningarhúsinu. Þingmannanefndinni, sem skipuð er þingmönnum Evrópuþingsins og Alþingis, er ætíð komið á fót í samningaviðræðum ESB. Hlutverk hennar verður að fylgjast með samskiptum Íslands og ESB og þá einkum umsóknar- og viðræðuferlinu. Í nefndinni eru 18 þingmenn, níu frá Alþingi og níu frá Evrópuþinginu

Í erindi sínu gerði utanríkisráðherra grein fyrir meginhagsmunum Íslands í samningaviðræðunum, einkum á sviði sjávarútvegs og landbúnaðar. Í umræðum að loknum erindum var nokkuð rætt um makrílveiðar og útskýrði utanríkisráðherra sjónarmið Íslands í tengslum við veiðarnar og rétt Íslendinga til að stunda þær í eigin landhelgi.. Lagði hann áherslu á mikilvægi þess að aðilar málsins, þar á meðal Ísland og Evrópusambandið, nái samkomulagi í þeirri deilu sem upp er komin.

Alla jafna munu fulltrúar ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar og ráðherraráðs Evrópusambandsins sitja fundi sameiginlegu þingmannanefndarinnar. Alþingismönnum gefst því kostur á að eiga formbundnar og milliliðalausar viðræður við framkvæmdastjórn og ráðherraráð ESB um umsóknarferli Íslands á vettvangi nefndarinnar. Sameiginleg þingmannanefnd verður því mikilvægur vettvangur fyrir alþingismenn til að rækja samráðs- og eftirlitshlutverk sitt meðan á ferlinu stendur. Sameiginlega þingmannanefndin mun koma saman tvisvar á ári, til skiptis á Íslandi og í starfsstöðvum Evrópuþingsins í Brussel eða Strassborg.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta