Hoppa yfir valmynd
8. október 2010 Forsætisráðuneytið

Skýrsla forsætisráðherra um skuldavanda heimila og fyrirtækja og aðgerðir ríkisstjórnar.

 

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra gaf Alþingi munnlega skýrslu í gær um aðgerðir ríkisstjórnar vegna skuldavanda heimila og fyrirtækja. Í máli hennar kom fram að flest bendi til að um 230 til 240 íbúðir, þar sem eigandi á lögheimili, fari að óbreyttu á lokasölu í október en nú sé m.a. unnið á þeim bráðavanda.Í vinnslu eru leiðir til að forða uppboðum sem fyrir dyrum standa á lögheimilum einstaklinga sem eru að vinna að lausn sinna mála. Ætlunin er að þessir aðilar fái nú flýtimeðferð hjá Umboðsmanni skuldara og embættið fái afdráttarlausar heimildir til að stöðva nauðungarsölur í slíkum tilfellum. Nú er unnið því að hafa samband við þá 230-240 aðila sem standa í þessum sporum og reynt að leita lausna í samráði við þá. Á Íslandi á enginn að þurfa að verða heimilislaus vegna skuldavanda – það þurfa stjórnvöld, fjármálastofnanir og sveitarfélög að tryggja í sameiningu.

Á næstu dögum er von á frumvarpi frá efnahags- og viðskiptaráðherra um viðbrögð við nýföllnum gengislánadómum, þar sem leitast verður við að draga úr óvissu og greiða fyrir úrlausn skuldamála einstaklinga. Jafnframt er unnið að því að endurnýja samkomulag við banka og aðra hagsmunaaðila um sértæka skuldaaðlögun. Gert er ráð fyrir að bönkunum verði gefinn stuttur tími til að vinna úr skuldamálum smærri og meðalstórra fyrirtækja á næstu mánuðum og bankarnir skili þannig til viðskiptavina sinna því svigrúmi sem þeir hafa til að mæta þörfum skuldsettra fyrirtækja. Með sama hætti þarf að skoða þær ábendingar sem komið hafa fram um galla á skuldaaðlögun einstaklinga og tryggja að með henni verði unnt að veita þúsundum einstaklinga fullnægjandi úrlausn í bönkunum á næstu mánuðum.

Forsætisráðherra vonar að samkomulag takist við alla hlutaðeigandi um þessa þætti í næstu viku. Allir verði að leggjast á eitt til að ná árangri, Alþingi, stjórnvöld, lánastofnanir og hagsmunasamtök heimilanna. Lánastofnanir verði að gefa eftir hluta af kröfuréttindum sínum þannig að tryggt sé að bótaábyrgð falli ekki á ríkisjóð vegna þeirra aðgerða sem gripið verði til.

Skýrsla forsætisráðherra um skuldavanda heimila og fyrirtækja og aðgerðir ríkisstjórnar.

Reykjavík 8. október 2010

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta