Ráðherra afhendir frumkvöðlaverðlaun Geðhjálpar
Guðbjartur Hannesson, félags- og tryggingamálaráðherra, var viðstaddur afmælisfagnað Geðhjálpar sem átti 31 árs afmæli 9. október og afhenti frumkvöðlaverðlaun félagsins sem veitt voru í annað sinn. Anna Valgarðsdóttir hlaut verðlaun fyrir „ötula og óeigingjarna baráttu í þágu geðsjúkra og aðstandenda þeirra um áratuga skeið“ eins og fram kom í umsögn dómnefndar og Páll Matthíasson, framkvæmdastjóri Geðsviðs Landspítalans, fyrir „frumkvæði að nýjung í geðheilbrigðisþjónustu með stofnun samfélagsgeðteymis og náins samstarfs við fulltrúa notenda þjónustunnar“.
Í ávarpi til félagsins ræddi ráðherra meðal annars um sameiningu heilbrigðisráðuneytisins og félags- og tryggingamálaráðuneytisins í nýtt velferðarráðuneyti um næstu áramót og lagði áherslu á að í sameiningunni fælust margvísleg tækifæri til góðra verka sem mikilvægt væri að nýta vel. Þannig yrði unnt að nálgast verkefni á nýjan hátt með aukinni samþættingu, sameiningu stofnana og aukinni samvinnu ríkis og sveitarfélaga. Ráðherra ræddi um áhrif niðurskurðar sem væri óhjákvæmilegur vegna efnahagsástandsins og hve miklu skipti að finna allar hugsanlegar leiðir til að skapa samlegð og auka skilvirkni og standa þannig vörð um þjónustu við notendur.
Ráðherra gerði einnig að umtalsefni frumvarp sem lagt verður fyrir Alþingi á haustþinginu vegna flutnings málefna fatlaðra til sveitarfélaganna. Í frumvarpinu verða einnig lagðar til breytingar sem snúa að notendastýrðri þjónustu og gerðar breytingar vegna samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.