Hoppa yfir valmynd
13. október 2010 Forsætisráðuneytið

Fjórði fundur samráðshóps um skuldavanda heimilanna

Fjórði samráðsfundur ráðherra og stjórnarandstöðu um skuldavandann var haldinn í forsætisráðuneytinu í morgun. Fundinn sátu auk forsætisráðherra, fjármálaráðherra, dóms- og mannréttindaráðherra, efnahags- og viðskiptaráðherra og félags- og tryggingamálaráðherra fulltrúar Framsóknarflokks, Hreyfingarinnar og Sjálfstæðisflokks.

Á fundinum var aðallega fjallað um nauðsynlegar aðgerðir til bregðast við bráðavanda þeirra heimila sem verst standa og fyrirhugaðar betrumbætur á fyrirliggjandi úrræðum heimila og fyrirtækja til lausnar á skuldavandanum. Ráðherrar gerðu grein fyrir lagafrumvörpum sem unnið er að og senn verða tekin fyrir á Alþingi, m.a. til að framlegja heimildir til að fresta nauðungarsölum,  heimildir til umboðsmanns skuldara sem veita skuldugum heimilum skjól fyrir uppboðum um leið og þau leita aðstoðar hjá embættinu, úrlausn gengisbundinna lána, aukið skjól fyrir ábyrgðarmenn á lánum í greiðsluaðlögun, lyklafrumvarp, fyrningu skulda við gjaldþrot o.fl.  Ákveðið var að öll stjórnarfrumvörp um lausnir vegna skuldamála færu samtímis til allra flokka á Alþingi í stað þess að fara aðeins til stjórnarflokkanna eins og verið hefur.

Forsætisráðherra ítrekaði óskir sínar um víðtækt samstarf við stjórnarandstöðu um lausn skuldavandans og sambærilegt samráð yrði haft um tillögur stjórnarandstöðunnar sem leitt gætu til farsællar lausna. 

Gert er ráð fyrir að næsti fundur samráðshópsins verði á föstudag.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta