Orkumálaráðherra Rússlands fundar með iðnaðarráðherra
Sergey Shmatko, orkumálaráðherra Rússlands, kemur í opinbera heimsókn til Íslands, ásamt sendinefnd, til fundar við Katrínu Júlíusdóttur iðnaðarráðherra og fulltrúa íslenskra orkufyrirtækja til að ræða frekara tvíhliða samstarf landanna á sviði orkumála. Ráðherrann mun einnig funda með Össuri Skarphéðinssyni utanríkisráðherra.
Með orkumálaráðherra eru í för Evgeniy Dod, forstjóri orkufyrirtækisins RusHydro og Alexey Kuzmitsky, héraðsstjóri Kamtsjaka, en þar hafa verið gerðar frumathuganir á nýtingu jarðhita til húshitunar, fiskeldis og raforkuframleiðslu í stórum stíl með þátttöku íslenskra aðila í því verkefni. Sendinefndin mun heimsækja Orkustofnun en hún hefur nýlega undirritað samning um samstarf á sviði við orkumála við systurstofnun sína í Rússlandi. Meðal aðila sem sendinefndin hittir hér á landi eru Íslenskar orkurannsóknir, Ísor, sem tóku þátt í jarðfræðirannsóknum og borunum á jarhitasvæðum í Chukotka héraði á árunum 2002 til 2003. Þá skoðar sendinefndin m.a. Hellisheiðarvirkjun og Landbúnaðarháskóla Íslands, Reykjum í Ölfusi.
Vinnufundur Sergey Shmatko orkumálaráðherra Rússlands með Katrínu Júlíusdóttur iðnaðarráðherra mun fara fram mánudaginn 18. október kl. 11 í iðnaðarráðuneytinu.